Guðni Th. Jóhannesson nýtur stuðnings 54,8% aðspurðra í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir komandi forsetakosningar. Könnunin var gerð fyrir Morgunblaðið. Davíð Oddsson nýtur stuðnings 19,7%, Andri Snær Magnason, 12,3% og Halla Tómasdóttir 9,5%.
Ef miðað er við síðustu könnun Félagsvísindastofnunar, sem einnig var gerð fyrir Morgunblaðið kemur í ljós að Halla bætir við sig mestu fylgi en um miðjan maí mældist hún með 1,5% og bætir við sig heilum átta prósentum.
Guðni Th. Jóhannesson tapar hins vegar mestu eða rúmum tólf prósentustigum, en hann mældist með um 67% fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar. Andri Snær bætir einnig töluverðu við sig, eða 4,5 prósentustigum og Davíð Oddson bætir við sig rúmum tveimur prósentustigum frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar.
Könnunin var gerð 1. og 2. júní og náði til 2.000 manns í netpanel Félagsvísindastofnunar. Þeir voru valdir með handahófskenndu úrtaki fólks yfir 18 ára aldri á landinu öllu. Alls svöruðu 893 könnuninni og er brúttó svarhlutfallið því 45%.
Ný könnun Félagsvísindastofnunar: Fylgi Höllu eykst mest

Tengdar fréttir

Ný könnun MMR: Fylgi Guðna minnkar um 9 prósentustig
Halla Tómasdóttir bætir við sig fimm prósentum.