Innlent

Andri Snær: „Fólki er óhætt að kjósa með hjartanu“

Birgir Olgeirsson skrifar
Andri Snær Magnason.
Andri Snær Magnason. Vísir/Anton Brink
„Þetta er bara í samræmi við það sem ég hef fundið og það er alveg augljóst af þessum tölum að dæma að það er ekkert að óttast í þessum kosningum,“ segir forsetaframbjóðandinn Andri Snær Magnason sem bætir við sig fylgi í skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Andri bætir við sig 2,2 prósentum milli kannana, fer úr 10,9 prósentum í 13,1 en Halla Tómasdóttir bætir einnig við sig, fer úr 7,3 prósentum í 9,6.

„Fólki er óhætt að kjósa með hjartanu,“ segir Andri Snær.

Sjá einnig: Fylgi við Andra og Höllu eykst

Hann segir að af þessum tölum af dæma sé fólki að verða ljóst að þessi taktíska hugsjón, að kjósa gegn einhverjum, sé misskilningur og að fólk eigi að kjósa með þeim sem það vill fá.

„Mér þætti gaman að hefja kosningabaráttuna núna, hætta að tala um Icesave og þorskastríð, og byrja að tala um hvaða verkefni forsetinn vill standa fyrir, hvaða áherslumál hann hefur og hvernig hann sér fyrir sér að hann muni vinna landi og þjóð gagn hér heima og erlendis og hver verður rödd Íslendinga erlendis,“ segir Andri Snær sem er eins og margir Íslendingar spenntur fyrir leik karlalandsliðs Íslands gegn því portúgalska á Evrópumótinu í knattspyrnu í kvöld.

Andri ætlar að reyna að komast niður á Ingólfstorg í kvöld og horfa á leikinn en hann er bjartsýnn á gengi okkar manna þegar hann er beðinn um að spá fyrir um úrslit leiksins.

„Ég segi að Ísland vinni 1-0, það getur ekki farið öðruvísi.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×