Fótbolti

Draumasóknin sem sendi Englendinga heim af EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
25 sekúndur af tærri snilld. Íslenska fótboltalandsliðið að sundurspila ensku vörnina og sækja sigurmark og sæti í átta liða úrslitum. Fjórtán mínútum fyrr voru margir enn einu sinni búnir að afskrifa liðið eða þegar markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson fékk á sig vítaspyrnu og Wayne Rooney kom Englandi í 1-0.

Víkingarnir frá Íslandi eru ekki saddir og ekki tilbúnir að fara heim. Þeir sönnuðu enn á ný úr hverju þeir eru gerðir. Það er öllum heiminum ljóst eftir svar íslensku strákanna við þessari martraðarbyrjun á Allianz Riviera leikvanginum í Nice.

Mörk íslenska liðsins á Evrópumótinu hafa vissulega verið dæmigerð mörk fyrir lið sem hefur boltann ekki mikið og þarf að nýta föst leikatriði, langar sendingar og skyndisóknir til að skapa sér sín færi. Jú, það var ein löng sending fram og fyrir­gjöf sem skilaði markinu á móti Portúgal, markið á móti Ungverjum kom úr víti sem var dæmt eftir hornspyrnu, íslenska liðið skoraði eftir langt innkast og skyndisókn í sigrinum á Austurríki og jafnaði metin á móti Englandi eftir annað langt innkast fyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar.

Sóknin fyrir sigurmarkið á móti Englendingum er hins vegar ein allra fallegasta sókn Evrópumótsins. Íslenska liðið átti níu sendingar áður en Kolbeinn Sigþórsson kom boltanum fram hjá Joe Hart í enska markinu.

Það sem meira er, átta af ellefu leikmönnum íslenska liðsins áttu þátt í undirbúningnum og það var Kolbeinn sjálfur sem kom sókninni af stað við miðlínuna áður en hann kom sér inn í teiginn til að fá stoðsendinguna frá Jóni Daða Böðvarssyni.

Það sem er flott að sjá er að áfallið í lok leiks á móti Ungverjalandi hefur aðeins styrkt íslenska liðið sem hefur í raun bætt leik sinn með hverjum leik á Evrópumótinu. Hér á síðunni má sjá hvernig íslenska liðið tryggði sér sigurinn í Nice.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur áFacebook,Twitterog Snapchat (sport365).

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×