Innlent

Biðröð myndaðist í Sendiráði Íslands í París vegna kosninga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hjördís Guðmundsdóttir tók skyndiákvörðun og ákvað að skella sér á leikinn gegn Austurríkismönnum í París. Hún kom frá Hollandi og nýtti ferðina til þess að greiða utankjörfundaratkvæði í sendiráðinu.
Hjördís Guðmundsdóttir tók skyndiákvörðun og ákvað að skella sér á leikinn gegn Austurríkismönnum í París. Hún kom frá Hollandi og nýtti ferðina til þess að greiða utankjörfundaratkvæði í sendiráðinu. Mynd af vefsíðu Sendiráðs Íslands í París
Um áttatíu manns hafa greitt utankjörfundaratkvæði í forsetakosningunum við sendiráð Íslands í París undanfarna daga og vikur. Biðraðir mynduðust við sendiráðið síðustu þrjá daga sem er afar óvenjulegt að sögn Nínu Björk Jónsdóttur sendiráðunauts.

Hún segir greinilega marga hafa verið stuðningsmenn karlalandsliðsins í knattspyrnu sem lék gegn Austurríki í París á miðvikudag. Margir hafi mætt í landsliðstreyjum og jafnvel málaðir í framan. Fleiri greindu frá því að þau væru í Frakklandi vegna mótsins þó þau væru borgaralega klædd.

Nína segir að fólk þurfi sjálft að sjá um að koma atkvæðinu heim til Íslands. Koma þurfi því í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjörda, sem er í dag. Nóg sé að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.

Eins og Vísir hefur greint frá gafst landsliðsmönnum Íslands sömuleiðis kostur á að kjósa í Annecy og nýtti um helmingur kosningarétt sinn. Þá kusu nokkrir fjölmiðlamenn í gær og sömuleiðis íslensk fjölskylda sem gerði sér ferð frá Lyon til að greiða atkvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×