Fótbolti

Arnór: Leyfum þjóðinni að dreyma aðeins lengur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnór Ingvi Traustason í stuði eftir leik á Stade de France í gær.
Arnór Ingvi Traustason í stuði eftir leik á Stade de France í gær. Vísir/Vilhelm
Arnór Ingvi Traustason innsiglaði sigur íslenska liðsins á Austurríki í gær með marki í uppbótartíma. Eftir orrahríð að marki íslenska liðsins afgreiddu okkar menn þetta með skyndisókn sem Arnór batt endahnútinn á.

„Ég sá boltann frekar seint í netinu en að sjá boltann inni var alveg ótrúlegt. Maður er enn þá með hroll eftir þetta allt saman,“ sagði Arnór Ingvi við Fréttablaðið eftir leikinn.

„Þetta er það stærsta sem Ísland hefur gert núna í knattspyrnu. Við erum enn að skrifa söguna og áfram leyfum við okkur að dreyma. Við erum líka að leyfa þjóðinni að dreyma aðeins lengur.“

Tölfræði Arnórs Ingva með landsliðinu er svakaleg en hann hefur svo sannarlega nýtt spiltíma sinn með liðinu síðan hann kom inn í það eftir undankeppnina. Markið í gær var hans fjórða í átta leikjum með Íslandi.

„Ég hef alveg trú á sjálfum mér og veit hvað ég get. Ef ég fæ einhverjar mínútur reyni ég að nýta þær eins vel og ég get. Mér finnst ég nýta minn spiltíma vel. Þetta féll fyrir okkur í dag sem er frábært,“ sagði Arnór Ingvi sem hlakkar auðvitað til að mæta Englandi í 16 liða úrslitunum.

„Það verður frábært að mæta Englandi en það sem er mikilvægt er að fá tvo aukadaga til að hvíla. Það er mikilvægt fyrir þá stráka sem hafa spilað. Nú verðum við að setja lappirnar á jörðina og fara að einbeita okkur að Englandi,“ sagði Arnór Ingvi Traustason.


Tengdar fréttir

Gylfi Þór: Pressa á Englendingum að klára Ísland

Gylfi var ánægður með sigurinn en ekki nógu ánægður með hversu illa liðinu gekk að halda boltanum í 2-1 sigri á Austurríki í kvöld en hann segir leikmennina vera spennta fyrir að mæta Englandi.

Aron Einar: Mun muna eftir þessu kvöldi þar til ég dey

Landsliðsfyrirliðinn sagðist hafa átt frábæra stund með stuðningsmönnum íslenska liðsins eftir 2-1 sigur á Austurríki í F-riðli EM í knattspyrnu í kvöld en leikmenn liðsins voru þakklátir fyrir stuðninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×