Fótbolti

Strákarnir unnu sér inn fimm daga hvíld með því að skora í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir fagna marki í kvöld.
Strákarnir fagna marki í kvöld. Vísir/EPA
Íslenska fótboltalandsliðið er komið í sextán liða úrslitin á Evrópumótinu í fótbolta eftir 2-1 sigur á Austurríki í lokaumferð F-riðilsins í kvöld.

Varamaðurinn Arnór Ingvi Traustason skoraði sigurmarkið í uppbótartíma eftir sendingu frá Theódóri Elmari Bjarnasyni.

Markið tryggði íslenska liðinu 2. sætið, jafntefli hefði dugað íslenska liðinu til að komast áfram en markið hjá Arnóri Ingva þýddi að íslenska liðið mætir Englandi í sextán liða úrslitunum.

Hefði Ísland gert 1-1 jafntefli þá hefði liðið mætt Króatíu í sextán liða úrslitunum á laugardaginn eða eftir bara þriggja daga hvíld.

Liðið mætir hinsvegar Englandi á mánudaginn eða tveimur dögum síðar. Íslenska liðið fær því fimm daga hvíld sem kemur sér vel fyrir þreytta fætur.

Íslenska liðið mun því spila síðasta leikinn í sextán liða úrslitunum alveg eins og liðið spilaði síðasta leikinn í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Leikur Íslands og Englendinga fer fram klukkan 19.00 á mánudagskvöldið og fer fram í Nice.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×