Skoðun

Mannréttindamál í ólestri hér á landi

Björgvin Guðmundsson skrifar
Mannréttindamál eru í ólestri hér á landi. Ég hef bent á það í greinum mínum, að það sé brot á mannréttindum að skammta öldruðum og öryrkjum svo nauman lífeyri, að þeir geti ekki lifað af honum; þeim sem eingöngu hafa tekjur frá TR.

Nú hefur það verið staðfest af mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins, Nils Muiznieks, að Ísland stendur langt að baki grannlöndunum í mannréttindamálum. Hann var hér á ferð fyrir skömmu og gagnrýndi þá ástand mannréttindamála hér. Gagnrýndi hann, að Ísland hefði enn ekki fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Ísland undirritaði þennan samning fyrir níu árum. Nær öll grannríki okkar hafa fullgilt hann. 164 ríki hafa fullgilt samninginn.

Á meðan mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins dvaldist hér var rætt við Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra um það hvað liði fullgildingu samningsins um réttindi fatlaðra. Hún sagði, að unnið hefði verið að lagasetningu til undirbúnings fullgildingu. Ýmis ríki hefðu fyrst fullgilt samninginn en síðan sett nauðsynleg lög. Var að heyra á henni að fara mætti þá leið. Málið heyrði undir innanríkisráðherra.

Getur enn dregist í langan tíma

Haft er eftir Ólöfu Nordal innanríkisráðherra að unnið verði að setningu nauðsynlegra laga til þess að fullgilda i samning SÞ. Var ljóst, að hún mundi leggjast gegn því að fullgilda fyrst samninginn. Það þýðir, að enn getur það dregist í langan tíma, að samningur Sþ um réttindi fatlaðra verði fullgiltur hér. Ég tel að fara eigi þá leið, sem Eygló minntist á: Að fullgilda samninginn fyrst og setja síðan nauðsynleg lög.

Evrópusambandið og grannlönd okkar hafa lögfest samninga, sem banna hvers konar mismunun. Fyrir fjórum árum var hér mannréttindafulltrúi á ferð, sem lagði áherslu á, að lögfestur yrði sams konar samningur hér. Það hefur ekki verið gert enn.

Mikil mismunun hér

Mismunun er mikil hér og ekki síst gegn öldruðum og öryrkjum. Það er stöðugt verið að mismuna þeim á öllum sviðum, í heilbrigðisstofnunum, í starfsmannamálum, í kjaramálum og á fleiri sviðum. Aldraðir sæta afgangi í heilbrigðisstofnunum. Þeir yngri ganga fyrir þar. Aldraðir á hjúkrunarheimilum fá ekki alltaf sömu spítalameðferð og þeir, sem vistaðir eru á spítölum.

Skilja aldraða eftir

Í kjaramálum gera stjórnvöld sér lítið fyrir og skilja aldraða eftir þegar allir aðrir fá miklar kauphækkanir eins og gerðist árið 2015. Heita má, að allar stéttir og hópar nema aldraðir og öryrkjar hafi þá fengið 14-40 prósenta kauphækkun. Aldraðir og öryrkjar voru einir skildir eftir í átta mánuði. Það var hreint mannréttindabrot.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×