Erlent

Sagðist hafa ætlað sér að drepa Trump á kosningafundi í Las Vegas

Atli Ísleifsson skrifar
Kosningafundur Donald Trump var haldinn í Treasure Island spilavítinu.
Kosningafundur Donald Trump var haldinn í Treasure Island spilavítinu. Vísir/AFP
Bandarísk lögregla segir að breskur maður sem handtekinn var á kosningafundi Donald Trump í Las Vegas fyrr í dag hafi reynt að komast yfir skammbyssu hjá lögreglumanni með það að markmiði að skjóta Trump til bana.

Í gögnum lögreglu er hinn nítján ára gamli Michael Steven Sandford sakaður um að hafa ætlað sér að drepa Trump. Er þar haft eftir Sandford að hann hafi ekið frá Kaliforníu til Las Vegas til að sækja kosningafundinn. Hafi hann heimsótt sérstakt skotsvæði á föstudaginn til að læra að skjóta úr byssu.

Í frétt NBC segir að Sandford hafi á fundinum, sem haldinn var í Treasure Island spilavítinu, gengið upp að lögreglumanni og sagt honum að hann vildi fá eiginhandaráritun hjá Trump og í kjölfarið reynt að ná skammbyssu lögreglumannsins af honum. Það hafi mistekist og hafi hann verið handtekinn.

Í frétt BBC segir að Sandford sé með breskt ökuskírteini og hafi búið í Bandaríkjunum í hálft annað ár. Hafi hann haft í hyggju að drepa Trump síðastliðið ár, en sagðist nú loks hafa verið reiðubúinn til að framkvæma verknaðinn og sannfærður um að hann myndi sjálfur deyja þegar hann myndi láta til skarar skríða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×