Tölurnar eru ekki að fullu samanburðarhæfar sökum þess að tölurnar frá 2012 koma einungis frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu en síðan þá hafa sýslumannsembættin verið sameinuð.
Þó skýrir það eitt ekki þessa miklu fjölgun á utankjörfundaratkvæðum segir Bergþóra Sigmundsdóttir, sviðsstjóri þinglýsinga- og leyfasviðs hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hún telur Evrópumótið í knattspyrnu spila inn í þessa fjölgun.

Frá og með 9. júní síðastliðnum hefur atkvæðagreiðsla utan kjörfundar aðeins farið fram í Perlunni. Þeir sem búa erlendis geta sent atkvæði sitt til sýslumanna fram að kjördegi í þar til gerðu umslagi.
Aðfaranótt sunnudagsins næstkomandi verður ljóst hver kemur til með að gegna embætti forseta Íslands næstu fjögur árin. Níu manns eru í framboði og ráða landsmenn úrslitum en 245 þúsund manns eru á kjörskrá. Því er langt frá því að úrslit séu ráðin en aðeins 4,3 prósent hafa greitt atkvæði enn sem komið er.
Í síðustu kosningum, árið 2012, var kosningaþátttaka 69,3 prósent.
Vísir hvetur kjósendur til þess að kynna sér frambjóðendur á kosningavef Vísis.