Lífið

Enn stærri skjár settur upp á Arnarhóli í heiðskíru veðri á sunnudag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gleðin í algleymingi á Arnarhóli á mánudag.
Gleðin í algleymingi á Arnarhóli á mánudag. vísir/eyþór
Enn stærri skjár verður settur upp á sunnudag á Arnarhóli fyrir leik Íslands og Frakklands í 8-liða úrslitum EM í knattspyrnu karla en þúsundir horfðu á leik Íslands við England á hólnum síðastliðinn mánudag. Gríðarlega góð stemning var á Arnarhóli yfir leiknum enda veðrið með besta móti og strákarnir fóru svo með sigur af hólmi.

Í tilkynningu segir að búist sé við meiri fjölda núna á sunnudag á hólinn og því hafa aðstandendur EM-torgsins sem er á Ingólfstorgi ákveðið að setja upp stærri skjá og hljóðkerfi á Arnarhóli svo fleiri geti notið leiksins þar. Þá verður salernisaðstaða einnig bætt sem og aðgengi fyrir fatlaða.

Mælt er með því að mæta tímanlega þar sem sérstök upphitunardagskrá verður fyrir leikinn sem hefst klukkan 19. Þá er vakin athygli á því að Lækjargata verður lokuð frá morgni til kvölds á sunnudag til að auka aðgengi gangandi og hjólandi fólks að Arnarhóli.

Samkvæmt spákorti Veðurstofunnar verður heiðskírt og hlýtt í Reykjavík á sunnudagskvöld en textaspá dagsins hljóðar svo:

Norðvestan 5-10 metrar á sekúndu norðaustan til og dálítil rigning. Heldur hægari vindur og bjartviðri sunnan- og vestanlands. Hiti frá 6 stigum við norðausturströndina, upp í 17 stig á Suðurlandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×