Andy Murray mætir Milos Raonic í úrslitaleik Wimbledon-mótsins í tennis á sunnudaginn.
Murray tryggði sér sæti í úrslitum með öruggum sigri á Tékkanum Tomás Berdych í þremur settum, 6-3, 6-3 og 6-3, í dag.
Þetta er í þriðja sinn sem Murray kemst í úrslit á Wimbledon. Hann tapaði fyrir Roger Federer 2012 en ári síðar bar hann sigurorð af Novak Djokovic.
Murray hefur komist í úrslit á öllum þremur risamótum ársins en hann tapaði fyrir Djokovic í úrslitum Opna ástralska og Opna franska.
Murray fær tækifæri til að vinna sinn þriðja sigur á risamóti á sunnudaginn en þá þarf hann að sigrast á Kanadamanninum Raonic sem vann Roger Federer í fyrri undanúrslitaleiknum í dag.
Murray og Raonic hafa mæst níu sinnum áður; Murray hefur unnið sex viðureignir og Raonic þrjár.
Sport