Fótbolti

Fyrstir í sögu EM til að fá á sig fjögur mörk í fyrri hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antoine Griezmann skoraði eitt mark og lagði upp tvö í fyrri hálfleiknum.
Antoine Griezmann skoraði eitt mark og lagði upp tvö í fyrri hálfleiknum. Vísir/EPA
Íslenska fótboltalandsliðið átti fá svör á móti frábæru frönsku liði í átta liða úrslitum Evrópumótsins í fótbolta í Frakklandi.

Frakkar eru búnir að klára leikinn með því að komast í 4-0 í fyrri hálfleik. Með þessum grimmi örlögum íslensku strákanna á þessum fyrstu 45 mínútum eru þeir búnir að setja nýtt óvinsælt met í sögu úrslitakeppni EM.

Ísland varð í kvöld fyrsta liðið í sögu keppninnar til að sækja boltann fjórum sinnum í markið sitt fyrir hálfleik.

Olivier Giroud, Paul Pogba, Dimitri Payet og Antoine Griezmann skoruðu mörk franska liðsins í þessum ótrúlega fyrri hálfleik liðsins.

Franska liðið hafði ekki skorað eitt einasta mark í fyrri hálfleik í fyrstu fjórum leikjum sínum á mótinu en bætti heldur betur út því á Stade de France í kvöld.

Íslenska liðið hafði fengið á sig samtals fjögur mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum fyrir leikinn þar af komu tvö þeirra í fyrri hálfleik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×