Viðskipti innlent

Tekjur Íslendinga: Davíð Oddsson langtekjuhæstur fjölmiðlamanna enn á ný

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Davíð Oddsson, Páll Magnússon, Kolbrún Bergþórsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Egill Helgason
Davíð Oddsson, Páll Magnússon, Kolbrún Bergþórsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Egill Helgason vísir
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, er langtekjuhæstur fjölmiðlamanna samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Samkvæmt tölum blaðsins er hann með um 3,6 milljónir króna í tekjur á mánuði en hann var einnig langtekjuhæstur í fyrra og var þá með rúmlega 3,3 milljónir króna í tekjur.

Næstur á eftir Davíð á listanum er samstarfsmaður hans hjá Morgunblaðinu Haraldur Johannessen sem einnig er ritstjóri blaðsins sem og framkvæmdastjóri Árvakurs, útgáfufélags blaðsins. Hann er með um 2,4 milljónir á mánuði samkvæmt tekjublaðinu.

Í þriðja sæti er Páll Magnússon þáttastjórnandi þáttarins Sprengisands á Bylgjunni með um 2,1 milljónir á mánuði. Hann er reyndar nýtekinn við stjórnartaumunum á Sprengisandi en var meðal annars með þætti á Hringbraut á liðnu ári.

Ragnhildur Sverrisdóttir kynningarfulltrúi Björgólfs Thors Björgólfssonar er tekjuhæsta konan í fjölmiðlabransanum samkvæmt Frjálsri verslun en hún er í fjórða sæti listans með tæpar tvær milljónir á mánuði.

Í fimmta sæti er svo Björn Ingi Hrafnsson útgefandi Vefpressunnar og DV með um 1,8 milljónir á mánuði. Jón Kristinn Laufdal Ásgeirsson auglýsingastjóri Fréttablaðsins kemur fast á hæla Björns Inga einnig með um 1,8 milljón á mánuði og þá er Ómar R. Valdimarsson fréttamaður Bloomberg með um 1,7 milljónir á mánuði.

Egill Helgason dagskrárgerðarmaður RÚV er hæstlaunaðasti starfsmaður ríkisfjölmiðilsins samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar með um 1,4 milljónir á mánuði. Fast á eftir honum kemur Kolbrún Bergþórsdóttir ritstjóri DV einnig með um 1,4 milljónir á mánuði og í 10. sæti er Eggert Skúlason fyrrverandi ritstjóri DV með um 1,2 milljónir á mánuði en hann lét af störfum fyrir um mánuði síðan.

Frjáls verslun gefur í dag út sitt árlega tekjublað og er blaðið í sölu í 13 daga. Þar eru birtar tekjur um þrjú þúsund einstaklinga víðs vegar af landinu. Þekkts fólks í þjóðlífinu, menn í atvinnulífi, listum og stjórnmálum.

Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2015 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×