Íslenski boltinn

Garðar Gunnlaugsson er búinn að skora meira en allt KR-liðið til samans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
KR er í frekar óvæntri og erfiðri stöðu í Pepsi-deild karla í fótbolta eftir tíu umferðir en þetta gríðarlega vel mannaða lið sem ætlaði sér Íslandsmeistaratitilinn er í tíunda sæti með tíu stig.

KR-liðinu gengur ekkert að skora mörk en það er búið að skora fæst allra liða í Pepsi-deildinni eins og kom fram á Vísi fyrr í dag. KR er ekki búið að skora nema átta mörk, einu færra en Þróttur og Fylkir sem eru í tveimur neðstu sætum deildarinnar.

Garðar Gunnlaugsson er markahæstur í Pepsi-deildinni með níu mörk en hann skoraði níu mörk á allri síðustu leiktíð þegar hann glímdi við mikið af meiðslum.

Garðar er búinn að skora jafnmörg mörk og allt lið Þróttar og Fylkis og einu marki meira en Vesturbæjarrisinn KR sem er aðeins búinn að skora átta mörk í Pepsi-deildinni eða fæst allra liða.

Um miðjan júní var KR búið að skora sex mörk en Garðar þrjú. Síðan skildu leiðir. KR hefur aðeins skorað tvö mörk í síðustu fjórum deildarleikjum en í gærkvöldi fór Garðar fram úr KR-ingum þegar hann skoraði sigurmark ÍA gegn Breiðabliki.

Þetta var enn fremur 50. mark Garðars í efstu deild á Íslandi. Hann hefur nú skorað 36 fyrir ÍA og fjórtán fyrir Val.

Frétt Arnars Björnssonar í kvöldfréttum Stöðvar 2 um markaskorun Garðars og KR má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×