Fótbolti

Ferguson og Moyes völdu engan Íslending í lið mótsins hjá UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson komst ekki í liðið.
Hannes Þór Halldórsson komst ekki í liðið. Vísir/Getty
Enginn íslenskur leikmaður komst í úrvalslið Evrópumótsins hjá UEFA en liðið var birt á heimasíðu evrópska knattspyrnusambandsins í dag.

Sérstök Tækninefnd UEFA valdi þá ellefu leikmenn sem henni fannst hafa staðið sig best á EM 2016 og þessi sama nefnd valdi einnig besta leikmann mótsins sem var Antoine Griezmann hjá Frakklandi.

Í úrvalsliðinu eru fjórir úr Evrópumeistaraliði Portúgals, þrír Þjóðverjar, tveir Frakkar og tveir frá Wales.Gareth Bale er ekki einn af þeim því fulltrúar Wales í liðinu eru þeir Joe Allen og Aaron Ramsey.

Tækninefndina skipuðu þeir Sir Alex Ferguson, Alain Giresse, David Moyes, Packie Bonner, Mixu Paatelainen, Savo Milošević, Peter Rudbæk, Gareth Southgate, Thomas Schaaf, Jean-François Domergue, Ginés Meléndez og Jean-Paul Brigger.

Íslensku strákarnir hefðu átt miklu meiri möguleika ef UEFA hefði látið velja 23 manna úrvalslið eins og á undanförnum fjórum Evrópumótum.

Nú voru það bara ellefu sem komust í liðið og sterkir kandídatar eins og markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson og miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson sátu því eftir með sárt ennið.

Úrvalslið EM 2016 (4-2-3-1):

Rui Patrício, Portúgal

Joshua Kimmich, Þýskalandi

Jérôme Boateng, Þýskalandi

Pepe, Portúgal

Raphaël Guerreiro, Portúgal

Toni Kroos, Þýskalandi

Joe Allen, Wales

Antoine Griezmann, Frakklandi

Aaron Ramsey, Wales

Dmitri Payet, Frakklandi

Cristiano Ronaldo, Portúgal

Það er hægt að lesa meira um valið hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×