Barack Obama forseti Bandaríkjanna ávarpaði þingið og skaut hart að forsetaefni repúblikana, Donald Trump. Hann sagði meðal annars að sýn Trump á framtíð Bandaríkjanna væri ekki það land sem hann þekkti. „Kraftur okkar kemur ekki frá sjálfskipuðum bjargvætti sem lofar því að hann einn geti komið á röð og reglu, svo lengi sem við gerum hlutina eftir hans nefi,“ sagði Obama meðal annars. Þegar forsetinn minntist á Trump byrjuðu áhorfendur að púa og svaraði forsetinn um hæl: „Ekki púa, kjósið!“
Forsetinn skaut ekki einungis að Trump heldur lýsti hann formlega yfir stuðningi sínum við Hillary Clinton sem forsetaefni demókrata. Hann sagði engan mann eða konu nokkurntíman hafa verið hæfari forsetaframbjóðanda. „Ekki ég, ekki Bill, enginn,“ sagði Obama. Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna og eiginmaður Hillary, stóð upp og fagnaði við þessi orð forsetans. Í lok ræðu Obama gekk Clinton inn á sviðið og fagnaði með forsetanum.
Joe Biden, varaforseti flokksins ávarpaði þingið einnig og lagði áherslu á millistéttarfólk. Hann sagði Trump ekki vita neitt um millistéttina og titlaði sjálfan sig „Millistéttar Joe." Varaforsetaefni Clinton, öldungadeildarþingmaðurinn Tim Kaine, hélt einnig ræðu.
Fundinum lýkur í kvöld og þá mun Hillary Clinton ávarpa þingið.