Erlent

Trump svaraði spurningum á Reddit

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump tók sig til og svaraði spurningum á Reddit í gærkvöldi. Í heildina svaraði hann þrettán spurningum notenda, en lítið nýtt kom fram varðandi stefnumál hans. Umræðan sýndi þó vel fram á hvaða mál brenna á stuðningsmönnum Donald Trump.

Hann byrjaði umræðuna á því að taka fram að hann væri í flugi og tengingin þar væri ekki sú besta. Hann myndi þó svara öllum þeim spurningum sem hann gæti.

Stuðningsmenn hans spurðu hundruð spurninga um margvísleg málefni en svörin voru yfirleitt ein eða tvær setningar.

Eitt af lengri svörum Trump sneri að því að sannfæra stuðningsmenn Bernie Sanders um að hann myndi taka á móti þeim opnum örmum. Eina Redditsvæðið sem er stærra en svæði Trump er svæði Sanders.

Redditsvæði Trumpr/The Donald, er gífurlega vinsælt, en stjórnendur þess stýrðu umræðunni af mikilli áfergju. Nýjum notendum var ekki gert kleift að spyrja og svo virðist sem harðir stuðningsmenn hans hafi verið í miklum meirihluta. Áður en umræðan hófst tilkynntu stjórnendur hennar að fjöldinn allur af athugasemdum yrðu fjarlægðar.

Eitt svar Trump snerist um innflytjendastefnu hans og sagðist hann hafa lagt fram ítarlega stefnu á vefsvæði sínu. Hann sagði þá stefnu snúa að því að vernda störf Bandaríkjamanna.

Buzzfeed bendir þó á að Trump sé nú að vinna að því að fá 78 erlenda aðila í vinnu á sveitaklúbbi og golfvelli sem hann á. Um er að ræða láglaunastörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×