Erlent

Michelle Obama gagnrýndi Trump harðlega á flokkþingi demókrata

Atli Ísleifsson skrifar
Michelle Obama forsetafrú.
Michelle Obama forsetafrú. Vísir/AFP
Michelle Obama, forsetafrú Bandaríkjanna, gagnrýndi Donald Trump, frambjóðanda repúblikana, harðlega í ræðu sinni á flokksþingi Demókrataflokksins í Philadelphiu í nótt.

Í frétt BBC segir að ræða Obama hafi verið kraftmikil þar sem hún sagði Bandaríkjamönnum að hlusta ekki á raddir sem sögðu að Bandaríkin væru ekki mikil eða stórfengleg, þar sem hún vísaði til slagorðs Trumps (e. Make America Great Again). „Því þetta, einmitt núna, er stórfenglegasta land í heimi.“

Obama ræddi einnig sögu og stöðu svartra í Bandaríkjunum. „Ég vakna á hverjum morgni í húsi byggðu af þrælum, “ sagði Obama og kvaðst stolt af því að geta fylgst með dætrum sínum leika við hundinn sinn á lóð Hvíta hússins.

Í ræðu sinni hvatti Bernie Sanders alla demókrata til að tryggja að Hillary Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna. Gestir flokksþingsins stóðu upp og klöppuðu fyrir Sanders, öldungadeildarþingmanni Vermont, áður en hann hóf ræðu sína. „Hillary Clinton verður að verða næsti forseti Bandaríkjanna,“ sagði Sanders við mikil fagnaðaróp gesta.

„Á meðan Donald Trump er upptekinn af því að móðga hvern þjóðfélagshópinn á fætur öðrum, þá gerir Hillary Clinton sér grein fyrir því að fjölbreytileiki okkar er okkar helsti styrkur,“ sagði Sanders.

Fyrr um kvöldið höfðu sumir stuðningsmenn Sanders baulað í hvert sinn sem nafn Hillary Clinton var nefnt á nafn, en hún mun formlega taka við útnefningu Demókrataflokksins á fimmtudag.

Samantekt CNN af fundi gærdagsins: Ræða Michelle Obama í heild sinni: Ræða Bernie Sanders í heild sinni:

Tengdar fréttir

Líf og fjör á landsfundi repúblikana

Landsfundur repúblikana í Bandaríkjunum fór fram um helgina. Donald Trump var formlega útnefndur til forsetaframboðs með varaforsetaefnið Mike Pence sér við hlið. Landsþingsmenn kölluðu eftir fangelsun Hillary Clinton. Stjórnmálaferill Ted




Fleiri fréttir

Sjá meira


×