Fótbolti

Aalesund upp úr fallsæti með sigri á Rúnari og lærisveinum hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Elís lék allan leikinn fyrir Aalesund.
Aron Elís lék allan leikinn fyrir Aalesund. mynd/heimasíða aalesund
Aalesund vann mikilvægan sigur á Lilleström í fyrsta leik dagsins norsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Lokatölur 2-0, Aalesund í vil.

Bæði mörkin komu í upphafi seinni hálfleiks. Mikkel Kirkeskov kom Aalesund yfir á 49. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar skoraði Franck Boli annað mark liðsins og þar við sat.

Aron Elís Þrándarson lék allan leikinn fyrir Aalesund en Adam Örn Arnarson kom inn á sem varamaður þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Daníel Leó Grétarsson tók út leikbann en hann fékk að líta rauða spjaldið í stórtapinu fyrir Brann í síðustu umferð.

Þetta var fyrsti sigur Aalesund frá 22. maí en þá vann liðið 0-1 útisigur á Bodö/Glimt. Með sigrinum í dag komst Aalesund upp úr fallsæti og í það þrettánda.

Illa hefur gengið hjá Rúnari Kristinssyni og lærisveinum hans að undanförnu en Lilleström hefur tapað sex af síðustu átta leikjum sínum. Liðið er í 10. sæti deildarinnar með 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×