Erlent

Trump ákveður loks að lýsa yfir stuðningi við helstu þungavigtarmenn Repúblikana

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Trump hafðii áður neitað að styðja Paul Ryan og John McCain.
Trump hafðii áður neitað að styðja Paul Ryan og John McCain. Vísir/EPA
Donald Trump, forsetaefni Repúblikana, hefur loksins ákveðið að styðja framboð Paul Ryan, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings til endurkjörs. Hafði hann áður neitað að styðja framboð Ryan.

Það kom flokksmönnum Repúblikana verulega á óvart í vikunni þegar Trump neitaði að styðja framboð Ryan og John McCain, öldungardeildarþingmanns, til endurkjörs en kosið verður til hluta þingsæta Bandaríkjaþings samhliða forsetakosningunum í nóvember.

Ryan, sem er æðsti kjörni fulltrúi Repúblikanaflokksins og McCain, sem var frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum 2008 eru jafnan taldir helstu þungavigtarmenn flokksins.

Það að Trump hafi neitað að styðja þá var talið vera til marks um deilur í efsta lagi flokksins en í gær gaf Trump út opinbera stuðningsyfirlýsingu við McCain og Ryan.

Hafa verður þó í huga að Ryan vildi sjálfur lengi vel ekki styðja Trump opinberlega en snerist þó hugur fyrir skömmu en bæði hann og McCain hafa gagnrýnt árásir Trump á foreldra stríðshetjunnar Humayun Khan sem hafa fallið í grýttan jarðveg í Bandaríkjunum. 

Hillary Clinton, forsetaefni Demókrata, hefur að undanförnu aukið á forskot sitt á keppinaut sinn Trump.  Í nýjum skoðanakönnunum sem birtar voru í vikunni er Clinton með allt að fimmtán prósenta forskot á Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×