Sport

Bandaríska Ólympíunefndin biðst afsökunar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jack Conger er hér nýbúinn að gefa skýrslu hjá lögreglunni. Hann fékk svo að fljúga heim ásamt Gunnari Bentz.
Jack Conger er hér nýbúinn að gefa skýrslu hjá lögreglunni. Hann fékk svo að fljúga heim ásamt Gunnari Bentz. vísir/getty
Það er nú orðið ljóst að Ryan Lochte og þrír sundfélagar hans lugu um að hafa verið rændir í tilraun til þess að hylma yfir skemmdarverk á bensínstöð.

Málið hefur verið mikið í fjölmiðlum enda var saga Lochte og félaga svakaleg.

Brasilíska lögreglan rannsakaði málið í þaula og komst að því að sundkapparnir bandarísku hefðu einfaldlega logið. Þeir stóðu fyrir skemmdarverkum á bensínstöð, buðust til að bæta fyrir skaðann en voru í kjölfarið stöðvaðir af vopnuðum öryggisvörðum.

Þrír sundkappanna voru yfirheyrðir en Lochte slapp heim til Bandaríkjanna áður en náðist í skottið á honum. Tveir sundkappanna - Gunnar Bentz og Jack Conger - voru stöðvaðir á flugvellinum í Ríó í gær er þeir ætluðu í flug heim. Þeir fengu að fljúga heim í gærkvöldi.

„Þessir íþróttamenn lentu ekki í neinu ráni. Þetta eru engin fórnarlömb,“ sagði lögreglustjórinn í Ríó.

Hægt er að kæra sundkappana fyrir falsaðir ásakanir þar sem hámarksrefsing er þriggja ára fangelsi. Brassarnir virðast þó ekki ætla að láta verða af því.

Bandaríska Ólympíunefndin hefur beðist afsökunar á hegðun sundkappanna. Segir hana vera óviðeigandi og ekki endurspegla þau gildi sem bandarískir íþróttamenn vilji standa fyrir.


Tengdar fréttir

Lochte neitaði að hlýða ræningjunum

Eins og fram kom á Vísi í gær var bandaríski sundmaðurinn Ryan Lochte rændur snemma sunnudags, þegar hann sneri heim úr samkvæmi í Ríó þar sem Ólympíuleikarnir fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×