Tæplega átta þúsund flóttamönnum hefur verið bjargað úr sjávarháska við strendur Líbýu frá því á sunnudag. Þar af um 6.500 á mánudaginn. Frá þessu greindi ítalska landhelgisgæslan í gær en hún hefur ráðist í sitt stærsta verkefni til að bjarga flóttamönnum til þessa. Fjöldi flóttamanna hafði lagt af stað út á Miðjarðarhaf á yfirfullum, hriplekum bátum.
Um fjörutíu skipum var bjargað tuttugu kílómetrum út af líbýsku borginni Sabratha og sýna myndbönd gæslunnar flóttamennina, sem flestir eru frá Erítreu og Sómalíu, fagna og synda að björgunarskipunum.
Ítalska landhelgisgæslan vann ásamt Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins, og Læknum án landamæra að björgunaraðgerðunum.
Flóttamönnum sem reyna að ferðast yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu hefur fjölgað mikið frá því í mars. Þá gerði Evrópusambandið samning við Tyrki sem innihélt ákvæði um að Tyrkir myndu koma í veg fyrir að flóttamenn færu þaðan og til Grikklands. Ríkin á Balkanskaga lokuðu landamærum sínum á sama tíma og því lokaðist leiðin yfir austurhluta Miðjarðarhafs. Áður en þeirri leið var lokað höfðu um 160 þúsund siglt þá leið til Grikklands.
Alls hafa rúmlega hundrað þúsund flóttamenn komið sjóleiðina til Ítalíu á árinu. 2.726 hafa látið lífið á leiðinni. Þetta kemur fram í tölum Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar (IOM). Þar segir einnig að um 275.000 flóttamenn séu í Líbýu að bíða tækifærisins að sigla yfir.
Þeir sem leggja leið sína yfir Miðjarðarhafið frá Líbýu til Ítalíu eru flestir frá Erítreu og Sómalíu en einnig kemur góður hluti frá Nígeríu, Gambíu og Sýrlandi. Hins vegar eru Sýrlendingar um þriðjungur þeirra sem hafa komið sjóleiðina til Evrópu á árinu, hvort sem það er til Grikklands eða Ítalíu.
Þeim flóttamönnum sem hafa komið sjóleiðina til Evrópu síðustu mánuði hefur fækkað talsvert samanborið við sömu mánuði í fyrra. Um 130.000 flóttamenn komu til Evrópu í ágúst 2015 en tæp 15.000 núna. Munurinn var þó minni á júlímánuð í ár og í fyrra, 78.000 á móti 25.000.
Erlent