Erlent

Trump lofaði Pútín í hástert

Atli ísleifsson skrifar
Hillary Clinton og Donald Trump.
Hillary Clinton og Donald Trump. Vísir/Getty
Donald Trump var ekki spar á lofsyrðin í garð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta á fundi sem sýndur var á NBC í gærkvöldi.

Þar komu þau saman, hann og Hillary Clinton, mótframbjóðandi hans í komandi kosningum í Bandaríkjunum. Þau stóðu á sviði, sitt í hvoru lagi og svöruðu spurningum frá fyrrverandi hermönnum í salnum en ekki var um eiginlegar kappræður á milli þeirra að ræða.

Trump hefur áður lofað Pútín, og á fundinum í gær sagði hann meðal annars að rússneski forsetinn væri mun meiri leiðtogi en Barack Obama hafi verið síðustu árin. Þá bætti hann við að Pútín væri afar vinsæll heima fyrir, sem hlyti að segja eitthvað um hann auk þess sem hann hefði góða stjórn á landi sínu, eins og hann orðaði það.

Hillary hét því á fundinum að senda aldrei bandaríska landgönguliða til Sýrlands. Hún fékk einnig nokkrar spurningar varðandi tölvupóstlekann. Sagði hún það hafa verið mistök hvernig hún hafi tekið á málum. Hún sagðist hafa mikla reynslu af því að fara með trúnaðargögn og að enginn tölvupóstanna hafi fallið undir þá skilgreiningu.

Frambjóðendurnir voru mest spurðir um öryggismál, hernaðarmál og málefni uppgjafahermanna. Trump sagðist meðal annars vera með áætlun um hvernig skuli berja niður ISIS-samtökin, en hann vildi þó ekki greina frá henni þar sem að óvinurinn mætti ekki komast að þeim fyrirætlunum.

Fyrstu opinberu eiginlegu kappræður þeirra Trump og Hillary munu fara fram í New York þann 26. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×