Það er farið að draga til tíðinda á US Open-tennismótinu en besti tenniskarl heims, Novak Djokovic, er eina ferðina enn kominn í undanúrslit.
Djokovic var búinn að vinna tvö sett, 6-2 og 6-2, er andstæðingur hans, Jo-Wilfried Tsonga, varð að hætta vegna meiðsla.
Djokovic hefur aðeins þurft að klára tvo leiki af fimm á mótinu þar sem andstæðingar hafa hætt. Sjálfur er hann að glíma við meiðsli þannig að hann kvartar ekki yfir styttri leikjum.
Hann mun mæta Frakkanum Gael Monfils í undanúrslitunum.
Hin danska Caroline Wozniacki er loksins vöknuð til lífsins í tennisheiminum á ný og hún tryggði sig inn í undanúrslitin með sigri á Anastasija Sevastova, 6-0 og 6-2. Sevastova spilaði meidd og sárþjáð. Hún hefði allt eins getað sleppt því að spila meidd því hún átti aldrei möguleika.
Hún mun mæta Angelique Kerber í undanúrslitunum. Komist hún í úrslit er ekki ólíklegt að hún mæti vinkonu sinni, Serenu Williams, þar.
Árangur Wozniacki hefur komið þægilega á óvart. Hún er i 74. sæti á heimslistanum og var því ekki í neinu sæti er styrkleikaraðað var fyrir mótið.
