Skoðun

Kaupmáttur og aldraðir

Sveinn Óskar Sigurðsson skrifar
Kaupmáttur á Íslandi hefur vaxið umtalsvert að undanförnu. Skiptir litlu hvort litið er til vísitölu þeirrar sem Verzlunarmannafélag Reykjavíkur tekur saman eða þeirrar sem Hagstofa Íslands tekur saman. Kaupmáttur vex og það sem aldrei fyrr. Því ber að fagna. En er þetta nóg?

Við eigum þó eftir eitt mikilvægt mál. Við eigum eftir að leiðrétta kjör aldraðra á Íslandi. Margir aldraðir hafa það bærilegt en það eru hópar sem sjá ekki fram á að viðamikið lífeyriskerfi nái tryggja góð lífsskilyrði þeirra.

Það vekur sérstaka undrun að falli heilsuhraustur einstaklingur undir skilgreiningar Tryggingastofnunar og hefur borgað lon og don í lífeyrissjóð sinn alla sína hunds- og kattartíð má ætla að hann fái ekki meira en sem nemur 207 þúsund krónum í ráðstöfunartekjur á mánuði. Taki þessi eldri borgari upp á því að vinna eilítið, þar sem hann er heilsuhraustur og vill vera í félagsskap með öðru fólki úti í atvinnulífinu, og fær fyrir það um kr. 100 þúsund á mánuði byrjar skerðing að bíta. Þessar 207 þúsundir hækka upp í aðeins um 246 þúsund að meðaltali yfir 12 mánaða tímabil. Þessi aukavinna skilar því aðeins um 39 þúsund krónum í ráðstöfunartekjur eftir að einstaklingurinn hefur unnið fyrir 100 þúsund krónum. Þarna rýrna réttindi hans umtalsvert. Framfærsluuppbótin fellur niður og fullir skattar koma til. Hvatinn til að vinna er því enginn.

Hafi annar einstaklingur sömu forsendur og framangreindur aðili, en í stað þess að vinna á hann kost á leigutekjum af húsnæði því sem hann hefur byggt upp og sparað með elju og dugnaði og hefur 100 þúsund krónur í tekjur af þessu húsnæði, verður refsing hans öllu meiri og fara tekjur hans þá úr 207 þúsundum upp í aðeins 230 þúsund. Svo hressilega er bitið af þeim sem leggja til hliðar og spara í húsnæði að 100 þúsund þessa einstaklings verða að 23 þúsundum með tilsvarandi fjárhagslegum og þannig félagslegum refsingum Tryggingastofnunar.

Í kerfinu er því hvati til að spara ekkert, eiga ekkert og leggja ekkert fyrir til mögru áranna. Er það hagkvæmt fyrir land og þjóð? Lagaumgjörðin öll um ellilífeyri, örorkubætur og Tryggingastofnun sjálfa er komin á tíma.

Greinin birtits fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×