Erlent

Trump skýst fram úr Clinton

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Hillary Clinton hefur mælst með meira fylgi frá því á landsþingi Demókrata en nú hefur breyting orðið þar á.
Hillary Clinton hefur mælst með meira fylgi frá því á landsþingi Demókrata en nú hefur breyting orðið þar á. vísir/epa
Donald Trump mælist með 45 prósenta fylgi á landsvísu en Hillary Clinton 43 prósent. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar CNN og ORC. Niðurstaðan er þó innan skekkjumarka og því er tæknilega um jafntefli að ræða. 

Aðrir frambjóðendur eru Gary Johnson, frambjóðandi Frjálshyggjuflokksins, og Jill Stein, frambjóðandi Græningja. Johnson mældist með sjö prósenta fylgi í könnuninni en Stein aðeins tvö prósent.

Trump hefur undanfarnar vikur mælst með ögn minna fylgi en Clinton en hún sótti talsvert í sig veðrið eftir landsfund Demókrata sem haldinn var í lok júlí. Þá mældist hún mest átta prósentustigum yfir Trump.

Trump vinsælli meðal óflokksbundinna kjósenda

Athygli hefur vakið að Donald Trump er ívið vinsælli en Clinton meðal óflokksbundinna kjósenda samkvæmt könnuninni. 49 prósent óflokksbundinna kjósendu sögðust styðja Trump en aðeins 29 prósent sögðu vilja Clinton í forsetastólinn.

Minnihlutahópar virðast hallast frekar að Clinton en 71 prósent hörundsdökkra kjósenda sögðust styðja hana. Clinton nýtur einnig stuðnings 70 prósenta einstæðra kvenna.

Telja Clinton hæfari forseta

Í könnuninni voru þátttakendur einnig spurðir um viðhorf sín í garð frambjóðendanna, þar á meðal hvor frambjóðandinn þeir teldu traustari og heiðarlegri. 

50 prósent aðspurðra töldu Trump heiðarlegri og traustari en 35 prósent gáfu Clinton atkvæði sitt. 15 prósent þótti hvorugur frambjóðandinn búa yfir þessum eiginleikum.

Clinton skoraði þó hærra þegar spurt var hvor frambjóðendanna  hæfari til þess að sinna skyldum forseta, þar fékk Clinton 50 prósent atkvæða en Trump 45 prósent. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×