Um er að ræða átta kílómetra vegakafla á Þjóðvegi 1 sem er ómalbikaður. Deilur landeigenda um hvar vegurinn eigi að vera hafa leitt til þess seinagangs að átján árum eftir malbikun Þjóðvegar 1 í heild eru þessir átta kílómetrar ómalbikaður.
Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að ekki hafi staðið á Vegagerðinni í þessu máli.

Svavar Pétur Eysteinsson, bóndi í Berufirði, tók mynd af veginum í gær sem sjá má hér til hliðar og varpaði þeirri spurningu til Vegagerðarinnar á samfélagsmiðlum hvað væri eiginlega að frétta. Í dag keyrði hann svo fram á slysið á sömu slóðum.
„Vegurinn er náttúrulega alltaf mjög lélegur enda umferðin mjög mikil. Þetta er Þjóðvegur 1 og gríðarleg aukning í umferð vegna ferðamanna,“ segir Svavar Pétur.
Verið var að hefla veginn í morgun en Svavar Pétur segir veginn þurfa stanslaust viðhald.
„Ef það er látið undir höfuð leggjast og það kemur ein rigning þá fer allt í mauk.“
Nýr vegur í árslok 2018
Loksins hefur verið tekin ákvörðun um að leggja nýjan veg yfir fjörðinn og eiga framkvæmdir að hefjast á næsta ári samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Er gert fyrir að framkvæmdum ljúki í árslok 2018. Svavar Pétur segir framkvæmdir ekki geta beðið.
„Það þarf að gera þetta strax. Það væri annað ef þetta væri fjallvegur einhvers staðar úti í rassgati. En þetta er Þjóðvegur 1.“
Kristján Már Unnarsson, fréttamaður Stöðvar 2, skoðaði vegakaflann í fyrra og má sjá fréttina að neðan. Síðan er nýr vegur kominn á samgönguáætlun.
Friðrik Árnason, framkvæmdastjóri á Hótel Bláfells í Breiðdalsvík, segir erlendu ferðamennina stórhneykslaða.
„Og halda oft á tíðum að þeir séu bara komnir í einhverjar ógöngur og vitleysu þegar þeir lenda á þessum vegkafla.“