Fótbolti

Stjórnarformaður Lilleström: Stend þétt við bakið á Rúnari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar er í erfiðri stöðu.
Rúnar er í erfiðri stöðu. vísir/getty
Owe Halvorsen, stjórnarformaður Lilleström, segist standa þétt við bakið á Rúnari Kristinssyni, þjálfara liðsins. VG greinir frá.

Illa hefur gengið hjá Lilleström að undanförnu en liðið tapaði 2-4 fyrir Odd í dag. Lilleström hefur nú ekki unnið í sex leikjum í röð og er komið ískyggilega nálægt fallsvæðinu.

Í samtali við VG sagði Halvorsen að Rúnar væri rétti maðurinn til að bjarga Lilleström og að fá nýja mann í brúnna myndi bara skapa ringulreið.

Haldinn var krísufundur fyrir þremur vikum þar sem ákveðið var að Rúnar myndi halda starfinu hjá Lilleström. Óvíst er hversu lengi það verður en það er ekki óalgengt að traustsyfirlýsingum fylgi brottrekstur.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag telur Ivar Hoff, fyrrum leikmaður liðsins og núverandi sparkspekingur í norska sjónvarpinu, líklegt að Rúnar verði rekinn á næstu dögum.

„Ég á von á einhverjum hreyfingum á næstunni. Arne Erlandsen tekur væntanlega við liðinu en ég sá hann á vellinum áðan. Ég á von á því að hann stýri liðinu á laugardaginn gegn Tromsö,“ sagði Ivar í norska sjónvarpinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×