Erlent

Clinton og Trump slógu áratuga gamalt met Reagan og Carter

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Aldrei hafa fleiri horft á kappræður forsetaframbjóðenda í sjónvarpi.
Aldrei hafa fleiri horft á kappræður forsetaframbjóðenda í sjónvarpi. Vísir/Getty
80,9 milljónir Bandaríkjamanna horfðu á kappræður Donald Trump og Hillary Clinton í nótt. Aldrei hafa fleiri horft á slíkan viðburð áður í sjónvarpi.

Tölurnar ná yfir áhorfendur sjónvarpstöðvanna í Bandaríkjunum sem sýndu frá kappræðunum en ná ekki yfir tölur á heimsvísu né yfir þá áhorfendur sem horfðu á netinu en búast má við að talan sé mun hærri séu slíkar tölur teknar með. Sem dæmi um það má nefna að um rúmlega ein milljón manns hefur horft á útsendingu Washington Post af kappræðunum sem bæði var sýnd á Facebook og Youtube.

Fyrra metið áttu kappræður Jimmy Carter og Ronald Reagan árið 1980 en á þær horfðu 80,6 milljónir Bandaríkjamannna. Mikil spenna var fyrir kappræðurnar og spáðu sumir að yfir 100 milljónir myndu horfa á kappræðurnar sem hefðu gert þær að einu vinsælasta sjónvarpsefni sögunnar.

CNN, sem heldur skrá yfir áhorfendatölurnar, segja að enn sé verið að telja og því megi búast við að heildartalan muni hækka. Kappræðurnar í nótt voru þær fyrstu af þremur fyrir kosningarnar 8. nóvember. Síðari tvær fara fram 8. og 19. október næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×