Fótbolti

Jón Guðni spilar ekki meira á leiktíðinni vegna höfuðmeiðsla

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Guðni Fjóluson spilaði alla leiki fram að meiðslunum.
Jón Guðni Fjóluson spilaði alla leiki fram að meiðslunum. mynd/ifknorrköping.se
Jón Guðni Fjóluson, miðvörður Svíþjóðarmeistara IFK Norrköping, spilar ekki meira á þessari leiktíð vegna höfuðmeiðsla sem hann varð fyrir í leik gegn Rosenborg í forkeppni Meistaradeildarinnar í júlí.

Miðvörðurinn stóri og sterki hefur ekki enn jafnað sig en læknar hafa nú tekið ákvörðun um að ekki sé óhætt fyrir hann að snúa aftur á fótboltavöllinn á þessari leiktíð. Hann má byrja að spila aftur eftir tvo mánuði.

„Það er ekkert annað hægt að gera en að bíða. Batinn hefur gengið hægar en reiknað var með en við tökum engar áhættur því það þarf að passa upp á heilann,“ segir Dale Reese, sjúkraþjálfari meistaranna, við Norrköpings Tidningar.

Jón Guðni gekk í raðir Norrköping frá Sundsvall fyrir tímabilið og spilað 90 mínútur í hverjum einasta leik þar til hann meiddist. Hann er nú búinn að missa af tíu leikjum og verður ekki meira með.

Norrköping tapaði illa á heimavelli í gær, 3-1, gegn Djurgärden og missti af tækifæri að endurheimta toppsætið í deildinni. Malmö er nú með eins stigs forskot þegar sex umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×