Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, hefur kvartað yfir því að Ahmad Khan Rahami fái meðferð á sjúkrahúsi. Hann segir ástandið undirstrika veikleika í þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
Rahami var særður í skotbardaga við lögreglu í gær, en hann er grunaður um aðild að sprengjuárásum í New York og mögulega New Jersey. 29 særðust í einni sprengingunni. Rahami hefur verið ákærður fyrir fimm manndrápstilraunir eftir að hafa skotið á lögregluþjóna og sært tvo þeirra.
Á kosningafundi í Flórída í gær sagði Trump að versti hlutinn við þetta væri að „nú munum við við veita honum frábæra aðhlynningu. Einhverjir bestu læknar heimsins munu hugsa um hann.“
Hann kvartaði einnig yfir því að Rahami, sem er bandarískur ríkisborgari, myndi fá að vera á nútímalegu sjúkrahúsi og að hann myndi líklegast fá herbergisþjónustu.
Trump virtist mótmæla því að ríkið myndi veita Rahami góða lögmenn til að verja sig í dómstólum. Hann sagði að málaferli gegn honum myndu taka mörg ár og að endingu yrði refsing hans ekki jafn alvarleg og hún yrði ef honum yrði refsað fyrr.
Stjórnarskrá Bandaríkjanna tryggir ríkisborgurum rétt til lögfræðiaðstoðar. Þá hefur Rahami ekki verið dæmdur fyrir glæp.
Donald Trump yngri hefur valdið miklum usla á Twitter eftir að hann líkti flóttamönnum við Skittles. Á mynd sem fylgdi tístinu er þeirri spurningu velt upp hvort að fólk myndi borða úr skál af Skittles ef það vissi af því að þrjú þeirra væru eitruð.
Það væri vandi Bandaríkjanna varðandi flóttafólk frá Sýrlandi í hnotskurn.
Trump yngri sagði myndina segja allt sem segja þyrfti.
Fjölmargir hafa svarað Trump og birt myndir af börnum frá Sýrlandi eða myndir af særðu fólki og segja þetta fólk ekki vera sælgæti. Einnig hefur Mars fyrirtækið, sem á framleiðendur Skittles, tjáð sig um málið.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, stefnir að því að taka á móti um tíu þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi.
Keflavík
Grindavík