Erlent

„Hún mun leggja sig fram við að leyfa Trump að fella sig sjálfur“

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Síðan hljóðupptökur með ummælum Donald Trumps var lekið til fjölmiðla fyrir helgi hafa milljónir kvenna stigið fram á samfélagsmiðlum og lýst upplifun sinni af kynferðislegri áreitni karmanna í sinn garð.

Í umræddum hljóðupptökum sem eru frá árinu 2005 segist Trump geta gert hvað sem er við konur í krafti frægðar sinnar.

Þrátt fyrir afsökunarbeiðni Trump í gær á ummælum sínum hafa áhrifamenn innan Repúblikanaflokksins farið fram á að Trump dragi framboð sitt til baka og lýst því yfir að þeir muni ekki styðja hann í komandi forsetakosningum. Vilja þeir jafnframt að Mike Pence, varaforsetaefni Trump, taki við keflinu. En hann hefur meðal annars fordæmt ummælin.

Aðjunkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur fylgst með kosningabaráttunni vestanhafs segir að viðbúið sé að mikill taugatitringur sér í herbúðum Trumps fyrir kappræðurnar í kvöld.

„Þetta er eiginlega ótrúleg staða. Að þetta komi bæði í kjölfar slæmra daga fyrir hann og síðan akkúrat rétt fyrir þessar kappræður. Hann getur ekki verið vel stemmdur,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir, aðjunkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Þrátt fyrir að mikla mótstöðu meðal flokksmanna sinna komu hundruð stuðningsmanna Trump saman fyrir utan Trump Towers í gær og hvöttu hann áfram.

Ljóst er að Rebúblikanaflokkurinn á í vandræðum með forsetaefni sitt en Trump hefur sjálfur gefið það út að hann muni ekki draga sig í hlé.

„Þetta er gífurlega skaðlegt fyrir flokkinn og í raun og veru þetta val á frambjóðanda er algjörlega andsætt markmiðum sem flokkurinn setti sér eftir kosningarnar 2012. Flokkurinn er í sárum. Það hefur komið inn nokkur fjöldi stuðningsmanna sem hefur kannski fundið sig þarna áður en á ekki samleið með hugmyndafræði leiðtogum flokksins. Þannig að þetta verður mjög erfitt að byggja flokkinn upp aftur, “ segir Silja Bára.

Donald Trump og Hillary Clinton mætast í kappræðum öðru sinni af þremur í St. Louis í Missouri í kvöld. Hillary þótti standa sig betur í fyrstu kappræðum frambjóðendanna og ljóst að atburðir síðustu daga muni ekki hjálpa mótframbjóðanda hennar.

„Hún verður örugglega tilbúin með einhver skot sem koma fram í hennar svörum og miðað við hennar frammistöðu í síðustu kappræðum að þá mun hún svona leggja sig fram við að leyfa Trump að fella sig sjálfur,“ segir Silja Bára


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×