Erlent

Donald Trump er ekki af baki dottinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump fær hér klapp á bakið frá ráðgjafa sínum á fundi í Trump Tower í gær.
Donald Trump fær hér klapp á bakið frá ráðgjafa sínum á fundi í Trump Tower í gær. Visir/AP
Þrátt fyrir að fjölmargir þungavigtarmenn innan bandaríska Repúblikanaflokksins hafi síðastliðinn sólarhring þrýst á forsetaframbjóðanda flokksins að hætta og láta varaforsetaefnið Mike Pence taka við keflinu segist auðkýfingurinn Donald Trump ekki vera af baki dottinn.

Þó Trump hafi ætíð verið umdeildur innan flokksins og það teljist vart til tíðinda að háttsettir Repúblikanar krefjist þess að hann segi stöðu sinni lausri þá hafa óánægjuraddirnar úr þeirra röðum magnast síðastliðinn sólarhring í kjölfar afhjúpunar Washington Post.

Blaðið birti myndband frá árinu 2005 þar sem heyra má auðkýfinginn ræða við sjónvarpsmanninn Billy Bush um konur á mjög grófan hátt. Segist Trump þar meðal annars geta komið fram við þær eins og hann vill - „Ég byrja bara að kyssa þær, eins og segull. Bara kyssi þær. Ég bíð ekki einu sinni. Þegar þú ert stjarna leyfa þær þér það. Þú getur gert hvað sem er. Gripið í píkuna á þeim. Þú getur gert hvað sem er.“

Sjá einnig:Trump stærði sig af því að komast upp með að káfa á konum

Þrátt fyrir mikla ólgu í herbúðum Repúblikana í kjölfar birtingarinnar segist Trump alls ekki ætla að hætta í baráttunni. „Ég myndi aldrei draga mig til hlés, ég hef aldrei gert það í lífi mínu,“ sagði forsetaframbjóðandinn í samtali við Washington Post í morgun.

Þó að nafntogaðir Repúblikanar á borð við forsetaframbjóðendurna John McCain og Mitt Romney og þingforsetinn Paul Ryan hafi baunað á Trump síðastliðinn sólarhring segist auðkýfingurinn finna fyrir miklum stuðningi.

„Fólk hringir í mig í hrönnum og segir að ég ætti ekki að láta hvarfla að mér að hætta baráttunni,“ sagði Trump og bætti við: „Stóra fréttin í þessu er allur stuðningurinn við mig, fólk trúir ekki hvað hann er mikill.“

Næstu forsetakappræður milli Hillary Clinton og Trump verða næstkomandi mánudag. Stjórnmálaskýrendur vestanhafs búast við því að frambjóðandi demókrataflokksins muni gera sér mat úr þessum ummælum og að Trump muni aftur þurfa að vera í vörn þorra kappræðnanna.

Donald Trump sendi frá sér afsökunarbeiðni í morgun sem heyra má hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×