Menning

Maður lærir mikið á því að kafa ofan í verk annarra

Magnús Guðmundsson skrifar
Kanadísku skáldin sem eru hingað komin til þess að taka þátt í þýðingarsmiðju.
Kanadísku skáldin sem eru hingað komin til þess að taka þátt í þýðingarsmiðju.
Skáldin Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Gyrðir Elíasson og Sigurbjörg Þrastardóttir koma fram á tveimur ljóðadagskrám í Reykjavík ásamt kanadísku skáldunum Chantal Neveu, Daniel Canty og François Turcot. Þau hafa unnið saman í þýðingasmiðjum og kynna afraksturinn og ljóðlist hvers annars á tveimur viðburðum um helgina. Sá fyrri á Kaffislipp í dag kl. 16 en seinna stefnumótið verður á morgun, sunnudag, á Ársafni – Menningarhúsi kl. 14. Hvor viðburður um sig stendur í um klukkutíma.

Aðalsteinn segir að þetta sé hluti af verkefni sem skáldin hafi verið að vinna saman og er fólgið í því að því að þýða ljóð hvers annars. „Við ætlum að vera með sýnishorn á þeirri vinnu, þannig að það munu heyrast þarna kanadísk ljóð á íslensku og íslensk ljóð á frönsku og kannski eitthvað þar á milli.

Það var ákveðið að fara í þetta í vor og nú erum við búin að vera saman í nokkra daga að kynnast hvert öðru og verkunum. Þetta er sýnishorn af afrakstri og svo ætlum við væntanlega að halda áfram með þetta tveggja heimsálfa verkefni.“

Aðalsteinn segir að það hjálpi mjög mikið við ljóðaþýðingar að kynnast höfundi þess ljóðs sem er verið að takast á við. „Við íslensku skáldin erum ekki frönskumælandi, þó svo við getum aðeins lesið frönskuna, en þess vegna þurfum við millimál. Við þurfum að geta spurt út í smáatriði og útilokað hættuna á misskilningi sem er okkur mikils virði.

Þetta er mjög skemmtileg og gefandi vinna og maður lærir svo mikið á því sem ljóðskáld að kafa með þessum hætti ofan í verk annarra.“



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×