Viðskipti innlent

Endurreisn alþjóðahagkerfisins of hæg

Sæunn Gísladóttir skrifar
AGS telur að hagvöxtur muni nema 3,4 prósentum árið 2017, samanborið við 3,1 prósent árið 2016.
AGS telur að hagvöxtur muni nema 3,4 prósentum árið 2017, samanborið við 3,1 prósent árið 2016. Vísir/Anton Brink
Í nýrri skýrslu spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn auknum hagvexti á næsta ári. AGS telur að hagvöxtur muni nema 3,4 prósentum árið 2017, samanborið við 3,1 prósent árið 2016. AGS varar þó við veiklyndi í alþjóðahagkerfinu.

Í frétt BBC um málið segir að AGS spái því að ákvörðun Breta um að yfirgefa Evrópusambandið muni hafa gríðarleg áhrif á næsta ári og hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir Bretland um helming, niður í 1,1 prósent.

Aukinn hagvöxtur í Japan, Þýskalandi, Rússlandi og Indlandi mun þó vega á móti minni hagvexti í Bandaríkjunum, að sögn sjóðsins.

Í skýrslunni er varað við lélegum gangi hjá hagkerfum heimsins þar sem veikur vöxtur geti leitt til minni fjárfestingar og minni framleiðni, og það geti bitnað á mannauði.

AGS hefur í dag minni áhyggjur af Kína en áður, að minnsta kosti til skamms tíma litið. Vöxtur hefur verið stöðugur þar í landi. Hins vegar er varað við langtímaáhrifum af skuldum kínverskra fyrirtækja.

Forsvarsmenn AGS óttast orðræðu Donalds Trump, forsetaefnis Repúblíkanaflokksins í Bandaríkjunum, hvað varðar andstöðu við fríverslunarsamninga. Í skýrslunni segir að það að bakka til fyrri tíma hvað varðar viðskipti geti einungis ýtt undir og framlengt stöðnun í hagkerfi heimsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×