Erlent

Trump segir allar konurnar ljúga

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump í Ohio í gær.
Donald Trump í Ohio í gær. Vísir/AFP
Donald Trump segir þær konur sem hafa sakað hann um áreiti og kynferðisbrot vera að ljúga. Hann segist geta sannað það og að hann sé fórnarlamb ófrægingarherferðar Hillary Clinton og fjölmiðla. Þá sagði hann framboð sitt berjast fyrir lífi Bandaríkjanna.

Trump hefur verið sakaður um að káfa á og kyssa konur gegn vilja þeirra í mörgum atvikum sem ná aftur til ársins 1980.

Tvær konur sem CNN ræddi við segja ástæðu þess að þær hafi stigið fram vera svar Trump við spurningu Anderson Cooper í síðustu kappræðum varðandi myndbandið frá 2005 sem Washington Post birti fyrir viku síðan.

Sjá einnig: Trump stærði sig af því að komast upp með að káfa á konum.

Þar mátti heyra Trump stæra sig af því að komast upp með að káfa á konum og kyssa þær í skjóli frægðar sinnar. Cooper spurði Trump hvort hann áttaði sig á því að hann hefði verið að tala um kynferðisbrot, en Trump sagði Cooper misskilja það sem hann hefði sagt.

Þetta hefði einungis verið svokallað „búningsklefa-spjall“ og svo fór hann að tala um Íslamska ríkið.

Frá síðustu helgi hefur fylgi Trump lækkað samkvæmt könnunum. Fjölmargir þingmenn Repúblikanaflokksins hafa dregið stuðning sinn til baka. Samkvæmt nýrri könnun Rauters segir fimmtungur skráðra repúblikana að ummæli Trump geri han óhæfan til að sitja í embætti forseta.

New York Times birti í gær frásögn tveggja kvenna sem sökuðu Trump um að hafa kysst sig og káfað á sér og í kjölfarið birtu aðrir fjölmiðlar aðrar frásagnir kvenna sem sökuðu forsetaframbjóðandann um að brjóta á sér.

Þá stigu einnig fram fyrrverandi þátttakendur í fegurðarsamkeppnum Trump sem sögðu hann reglulega hafa gengið inn á stúlkur, allt að fimmtán ára gamlar, þar sem þær voru að klæða sig.

Sjá einnig: Konur saka Trump um kynferðisbrot

Lögmaður Trump hefur hótað New York Times lögsókn og Trump segist aldrei hafa hitt þessar konur.

„Þessar ásakanir gegn mér um óviðeigandi hegðun gagnvart konum eru fullkomnlega og algerlega rangar og Clinton hjónin vita það. Ég hef aldrei hitt þetta fólk,“ sagði Trump á kosningafundi í Ohio í gær.

Þá virtist Trump gefa í skyn að konurnar væru ekki nægilega fallegar til að hann myndi veita þeim athygli.


Tengdar fréttir

Framleiðandi The Apprentice fordæmir framboð Trump

Mark Burnett, sjónvarpsþáttaframleiðandinn sem kom Donald Trump á kortið með þáttunum The Apprentice, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann fordæmir forsetaframboð Trump.

Trump fagnar því að vera laus við þungavigtarmennina

Ríkisstjórinn Chris Christie vill ekki lengur koma Trump til varnar, ekki frekar en ýmsir aðrir þungavigtar­menn úr Repúblikanaflokknum sem hafa haldið sig til hlés eftir að upptöku sem sýndi Trump viðhafa óviðeigandi ummæli um konur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×