Sport

Brady vildi ekki svara spurningum um Trump

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Brady og Trump á góðri stundu.
Brady og Trump á góðri stundu. vísir/getty
Leikstjórnandi New England Patriots, Tom Brady, er vinur forsetaframbjóðandans Donald Trump. Það kom því ekki á óvart að hann skildi hafa verið spurður út í ummæli Donald Trump um konur á dögunum en þau ummæli hafa gert allt vitlaust.

Trump sagði að þetta hefði bara verið búningsklefatal sem ætti ekki að taka of alvarlega. Brady var spurður að því á blaðamannafundi hvernig börnin hans myndu bregðast við túlkun Trump á búningsklefatali.

„Þakka ykkur fyrir og eigið góðan dag,“ sagði Brady, brosti og gekk út.

Í september í fyrra sást Brady með „Make America Great Again“ húfu en það er slagorð Trump. Hann sagði líka í fyrra að það væri frábært ef Trump yrði kosinn forseti.

Síðar sagði Brady að hann vildi ekki taka þátt í pólitískri umræðu.

„Donald er góðvinur minn og við höfum þekkst lengi. Ég styð alla mína vini. Það er það eina sem ég hef að segja. Hann hefur stutt mig í 15 ár eða allt frá því ég var dómari í fegurðarsamkeppni á hans vegum. Við höfum oft spilað golf saman og ég nýt félagsskaps hans,“ sagði Brady í desember í fyrra en hann hefur lítið tjáð sig um vin sinn Trump í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×