Fótbolti

Leikur upp á framtíðina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ungu strákarnir okkar ætla að gera eins og gullkynslóðin fyrir fimm árum og spila á lokamóti EM í Póllandi á næsta ári. Fréttablaðið/Stefán
Ungu strákarnir okkar ætla að gera eins og gullkynslóðin fyrir fimm árum og spila á lokamóti EM í Póllandi á næsta ári. Fréttablaðið/Stefán
Ísland getur öðru sinni á fimm árum komið U21 árs landsliði í lokakeppni Evrópumóts í kvöld þegar ungu strákarnir okkar mæta Úkraínu í lokaleik liðsins í undankeppni EM 2017 sem fram fer í Póllandi á næsta ári. Staðan er einföld: Ef Ísland vinnur leikinn vinnur það riðilinn. Aftur á móti er ansi líklegt að Ísland missi meira að segja af umspilinu tapi það stigum í Laugardalnum í kvöld því Makedónía og Frakkland eru að öllum líkindum að fara að vinna sína leiki í lokaumferðinni gegn tveimur neðstu liðum riðilsins

Það er mikið undir fyrir íslenskan fótbolta í kvöld en bara jákvæðir hlutir. Það muna allir eftir gullkynslóðarliðinu sem fór á EM 2011 og skilaði 5-6 byrjunarliðsmönnum í A-landsliðið. Það væri ósanngjarnt að ætlast til þess að þetta lið núna sé með jafnmarga leikmenn í þeim gæðaflokki en að komast á EM hefur jákvæð margföldunaráhrif fyrir leikmennina og þar af leiðandi íslenskan fótbolta og A-landsliðið.

Góður gluggi

Lokakeppni U21 árs landsliða er kjötmarkaður. Þar mæta útsendarar óteljandi liða, allir staðráðnir í að finna ofurstjörnu framtíðarinnar. Þetta er einn besti búðargluggi sem til er fyrir leikmenn í álfunni að sýna sig eins og sannaðist með strákana okkar fyrir fimm árum.

Fullt af leikmönnum úr liðinu, sem voru sumir þá þegar orðnir atvinnumenn, færðu sig um set í betri lið og urðu þar af leiðandi betri leikmenn. Vissulega voru sumir leikmenn U21 árs liðsins 2011 í stórum deildum og færðu sig um set á milli þeirra en vitaskuld hafði lokamótið sín áhrif.

Þegar strákarnir voru komnir í betri lið urðu þeir betri leikmenn og þeim gæðum skiluðu svo sumir þeirra inn í A-landsliðið sem síðan komst í fyrsta sinn í lokakeppni. Að komast í svona keppni getur haft þessi jákvæðu margföldunaráhrif fyrir fótboltann hér heima.





Vísir/Stefán


Fyrir fimm árum


Eins og fyrir fimm árum síðan eru 5-6 byrjunarliðsmenn í U21 árs liðinu núna atvinnumenn. Flestir þeirra spila á Norðurlöndunum og vilja taka næsta skref en að vera til sýnis í búðarglugganum í Póllandi á næsta ári ætti heldur betur að hjálpa til við það.

Stærra fyrir strákana hér heima

Oliver Sigurjónsson, fyrirliði íslenska liðsins, er mjög tæpur fyrir leikinn á morgun vegna beinmars sem hann fékk eftir að fá skot í kálfann á æfingu Breiðabliks undir lok tímabilsins. Oliver er búinn að spila frábærlega í undankeppninni og sagði við Fréttablaðið í gær að það væru ekki nema 50 prósent líkur á að hann gæti byrjað leikinn.

Hann, eins og allir aðrir í liðinu, þráir að komast í lokakeppnina og er fullmeðvitaður um hverju það gæti skilað fyrir íslenskan fótbolta og leikmönnum liðsins. Þá sérstaklega strákum eins og honum sem spila hér heima.

Komið okkur lengra en til Norðurlanda

„Þetta gæti skilað okkur í stærri deildir og komið okkur lengra en til Norðurlanda þangað sem margir fara úr íslensku deildinni. Það eru öll lið í Evrópu og utan Evrópu sem horfa á keppnina. Það er ekki hægt að ímynda sér hversu stórt þetta er en fyrir leikmenn á Íslandi er þetta enn þá stærra. Það eru vonbrigði fyrir mig að geta ekki hjálpað þeim að taka lokaskrefið en ég veit að það kemur alltaf maður í manns stað hjá þessu liði,“ sagði Oliver Sigurjónsson.

Kolbeinn Sigþórsson.Vísir/AFP
Búðarglugginn

Leikmenn U21 árs liðsins 2011 sem skiptu um lið eftir EM í Danmörku.

Aron Einar Gunnarsson: Fór frá Coventry til Cardiff þar sem hann hefur spilað síðan. Er fyrirliði A-landsliðsins og einn af þess allra mikilvægustu mönnum.

Birkir Bjarnason: Byrjaði á bekknum í Danmörku en fór samt frá Viking í Noregi til Standard Liège í Belgíu. Er fastamaður í A-landsliðinu og skoraði fyrsta mark Íslands á EM 2016.

Kolbeinn Sigþórsson: Var búinn að minna rækilega á sig í Hollandi með AZ Alkmaar en var keyptur sem aðalframherji hollenska stórveldisins Ajax. Kominn í dag til Galatasaray og er næstmarkahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi.

Rúrik Gíslason: Kantmaðurinn kraftmikli fór frá OB í Óðinsvéum til FC Kaupmannahafnar og spilaði þar meðal annars í Meistaradeildinni. Var lengi byrjunarliðsmaður í landsliðinu en missti sæti sitt og svo missti hann af EM vegna meiðsla.

Haraldur Björnsson: Aðalmarkvörður U21 fyrir fimm árum, fór frá Val til Sarpsborg í Noregi.

Eggert Gunnþór Jónsson: Var vissulega með sterka ferilskrá þegar kom að lokamótinu en fór frá Hearts í Skotlandi til Úlfanna í ensku úrvalsdeildinni.

Hólmar Örn Eyjólfsson: Fór úr unglingaliði West Ham til Bochum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×