Ferðirnar hafa lengst og fjöllin hækkað Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar 29. október 2016 09:15 Leifur Örn á fullu að pakka niður heima í stofu daginn fyrir brottför til Nepal. Vísir/Vilhelm Leifur Örn fjallaleiðsögumaður er nýkominn heim frá Norður-Afríku og er að leggja af stað til Nepal þegar hann er króaður af í viðtal. Nú stendur hann brátt á fimmtugu og það gefur tilefni til að líta um öxl og líka fram á veg. „Ég er meira og minna í leiðsögn, síðustu árin mikið í háum fjöllum og erfiðum leiðum, á Grænlandsjökli, á pólunum, í janúar síðastliðnum fór ég til dæmis bæði á Suðurpólinn og hæsta fjall Suðurskautslandsins. Það stóð til að ég færi aftur þangað núna í desember en það verður ekki og ég er feginn því. Það er kærkomið bæði fyrir mig sjálfan og fjölskylduna að ég sé aðeins heima.“ Þú ert fjölskyldumaður. „Já, ég á konu, Sigrúnu Hrönn Hauksdóttur, og börn sem eru orðin stálpuð, það yngsta er ellefu ára. Ég hef gegnum tíðina unnið mikið frá fjölskyldunni. Leiðsögnin er eins og togarasjómennska. En það hafa komið tímabil sem ég hef verið alveg heima hluta úr árinu, og unnið á Veðurstofunni eða í Björgunarskólanum.“ Hvaðan kemur þér áhuginn á fjallamennsku? Ætli Tinni í Tíbet eigi ekki sinn þátt í honum. Þegar ég fór á Everest tók ég þá bók með! Mér hefur alltaf þótt ævintýraljómi yfir fjallgöngum og ferðalögum sem þarf að hafa fyrir. Á æskuheimilinu í Kópavogi voru keyptar bækur um það sem gerðist fréttnæmt á hverju ári fyrir sig, ég staldraði alltaf við myndir af fjallaklifrurum, pólförum og fólki að sigla skútum kringum hnöttinn. Ég var líka ungur þegar ég fór að gista í snjóhúsi í garðinum og fara í gönguskíðaferðir. Svo hafa ferðirnar lengst og fjöllin hækkað.“Lítil sjoppa við göngustíg í Atlasfjöllum sem Leifur Örn gengur um í Marokkóferðunum. Leifur Örn var meðal þeirra sem stofnuðu Íslenska fjallaleiðsögumenn árið 1993. Þá hafði hann verið að leiðsegja erlendum ferðamönnum á sumrin og hélt því áfram. „Síðustu ár hef ég svo töluvert verið með Íslendinga í ævintýraferðum erlendis og þeim ferðum fjölgar á næstu árum. Nú er ég til dæmis nýkominn frá Marokkó með hóp. Við fórum fyrstu vikuna í október, þá er hitastigið orðið bærilegt í Marokkó og ágætur sumarauki fyrir Íslendinga. Verðlagið er lágt þarna og það er ævintýri að ganga um Atlasfjöllin. Þar búa Berbar og þótt þeir séu helmingur þjóðarinnar þá búa þeir afskekkt og tala annað tungumál en Arabarnir. Í efstu þorpum býr fólk enn í leirkofum og það er án samgangna í tvo mánuði á ári vegna snjóa. Okkur er því kippt í allt aðra menningu og veðurfar en við þekkjum að heiman en mataræðið er örugglega nær markmiðum Manneldisráðs en margt sem við borðum dags daglega, mikið af grænmeti og ávöxtum. Í hádeginu er breitt úr dýnum til að setjast á og matast, þær eru yfirleitt í skugga en þegar Íslendingar koma spyrja þeir: Hva, eigum við að borða í skugga? þá eru dýnurnar færðar í sólina!“Fólk í þorpinu Sugapa í Papúa Nýju-Gíneu sem gengið er um á leið á Carstensz Pyramid, hæsta fjall Eyjaálfu. Litli drengurinn ber typpahlíf, að sið karlmanna svæðisins, þó hún sé reyndar ekki í réttum skorðum. Sigrún Hrönn, eiginkona Leifs Arnar, er ferðagarpur líka og vinnur hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. „Sigrún var kennari til margra ára. Lærði svo mannfræði og þekkir til ýmissa þjóðflokka svo það er kærkomin viðbót þegar hún kemur með í ferðir,“ lýsir hann og segir þau hjón ætla saman í spennandi ferð í haust, í tilefni af fimmtugsafmæli hans. „Ég er að fara til Nepal núna í gönguferð upp í grunnbúðir Everest með tólf manna hóp, það er ein af fallegustu gönguleiðum heims. En þegar henni lýkur ætlar Sigrún að koma út og við ætlum að hjóla saman aðra fallega leið um Nepal. Fara með reiðhjólin upp í 5.400 metra hæð með eins lítinn farangur og við getum, einar hreinar nærbuxur hvort svo við getum skolað hinar og búið! Og kaupum okkur bara mat á te- og kaffihúsum.“ Er ekki hætta á háfjallaveiki þegar þið eruð komin í svona mikla hæð? „Jú, það verður að fara varlega í svona hæð og þó ég hafi verið í fjallabröltinu þá er það konan mín sem þolir hæðina betur en ég. Hún kom með mér í efri grunnbúðir Everest þegar ég var á leið á fjallið norðanmegin, þær eru í 6.500 metra hæð. Þar komst ég ekki úr sporunum en hún spurði bara hvað væri að mér! Hinir fjallamennirnir gerðu grín að þessu og spurðu hvort það væri ekki ráðlegra að hún héldi áfram en ég skriði niður aftur og færi heim. En það þarf ekki bara að aðlagast vel, heldur líka að hafa þessa sterku þrá sem drífur mann áfram í gegnum allt.“Á leið á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku.Í veðravíti á Vatnajökli Hvar hefur þú komist í hann krappastan? „Ég hef alltaf reynt að forðast að komast í hann mjög krappan og vil gera það framvegis. En eitt sinn kom beiðni frá Ítala um leiðsögn yfir þveran Vatnajökul í febrúar. Ég taldi það ekki nokkurt vit, þekkjandi veðravítið sem þar getur verið á þeim árstíma. Eftir dálítið þóf lét ég þó tilleiðast að fara með honum og tveimur vinum hans og við lögðum upp frá Kverkfjöllum í vikuferð. Þrátt fyrir að ég hafi aldrei fegrað hlutina fyrir þeim þá höfðu þeir ekki reiknað með að vera lengst af ferðinni eins og inni í jólakúlu með snjó og að veðurhæðin yrði þannig að tjaldgrindur brotnuðu og sleðarnir héldust ekki á réttum kili, hvað þá að við yrðum að leita skjóls í sprungum og grafa okkur í fönn. En allur þessi pakki fylgdi með. Stakkurinn minn var svo ísaður eitt kvöldið að í stað þess að taka hann inn í tjald og láta hann þiðna ákvað ég að fara í hann eins og klakabrynju um morguninn. Ég hafði farið að kenna fjallamennsku á Höfn nokkrum dögum áður og horft úr flugvél á Breiðamerkurjökul og Skeiðarárjökul alveg fagurdjúpbláa og snjólausa, ég hugsaði: þar fór flóttaleiðin. Svo ég fór Öræfajökulsleiðina með Ítalina og komst með þá í skjól undir Hvannadalshnúk í vestanátt. Við höfðum upplifað mikinn veðurham á köflum og allt sem við vorum með var ísað og eins og snjóboltar, þar á meðal áttavitinn. Ég segi við þá að þó veðrið sé gott þarna undir Hnúknum ætli ég ekki með þá upp á topp, heldur taka upp nesti og halda svo áfram. „Ef þú bara kemur okkur lifandi niður af þessu fjalli þá erum við þakklátir,“ sagði sá sem mest hafði nauðað um að fara. Þeir hafa verið í sambandi við mig síðan og senda mér alltaf myndir úr ferðinni, allar í móðu!“ Kannski verður þessum myndum brugðið upp í afmælisstundinni sem Leifur Örn ætlar að halda 3. desember, þegar hann verður fimmtugur. Hann er búinn að leigja Austurbæ undir myndasýningu og ætlar að bjóða þeim sem hafa gengið með honum gegnum tíðina. „Þetta er algerlega óundirbúið ennþá, myndirnar í pappakössum og enginn farinn að fá boðskort,“ segir hann afsakandi. Strax eftir áramótin er hann að fara á hæsta fjall Suður-Ameríku, Aconcagua, með hóp Íslendinga og í febrúar ætlar hann á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku. „Það er opið í þá ferð ennþá hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum!“ auglýsir hann. „Síðan ætla ég í smá frí með konunni minni. Hana langar að ganga Vasagönguna í Svíþjóð, 90 kílómetra skíðagöngu, og þó ég sé ekki vanur að ganga á þvengmjóum skíðum í einhverju skíðaspori hlýt ég að lifa það af!“ Grænland er eitt af eftirlætislöndum Leifs Arnar. „Við höfum verið með eina ferð yfir Grænlandsjökul í mörg ár, ég hef verið svo lánsamur að hafa farið nokkrum sinnum, meira að segja í 29 daga ferð með indverska sjóherinn sem var að æfa sig fyrir ferð á Suðurpólinn, það ferðalag væri efni í heilt viðtal,“ segir hann. „Við förum frá austri til vesturs yfir jökulinn, frá Angmagssalikhéraði, eins og Nansen gerði þegar hann fór fyrstur yfir jökulinn 1888. En veðurbreytingarnar í heiminum hafa áhrif á allt. Við erum orðnir svo hræddir við leysinguna sem er á jöklinum þegar fer að vora og förum um 20. apríl, ef veður leyfir, sem þýðir að hæðin yfir jöklinum er ekki orðin eins sterk og hún verður yfir sumarið. Ég var einn og hálfan mánuð á Grænlandi í sumar og allan júní og fram í ágúst var stilla og bjartviðri. Áður fóru fyrstu haustlægðirnar að snerta Grænland í byrjun september en nú eru þær farnar að koma um miðjan ágúst. Mér finnst Grænland ákaflega heillandi, hef verið mikið þar og náð að heimsækja nánast öll byggð ból. Austurströndin er í mestu uppáhaldi. Þar eru tindarnir hvassastir, jöklarnir fram í sjó og menning íbúanna einstök.“Með hóp á leið á Aconcagua, hæsta fjall Suður-Ameríku. Sérkennilegar snjóstrýtur, „Penitendes“, einkenna svæðið. Á heilögu svæði í háfjöllunum Er eitthvað sem hefur snortið þig meira en annað á þínum ferðum? Mér finnst alltaf hrífandi hvernig mannlíf og menning þrífst í köldum og hrjóstrugum löndum. Ég man eftir gönguskíðaferð um páska á austurströnd Grænlands, við löbbuðum upp á heiði til að horfa á ísjakana í Chalmerlick-firðinum og eftir bara smástund var maður gegnfrosinn í fínu dúnúlpunni og einangruðu vettlingunum. „Ah, nú förum við inn aftur í hlýjuna,“ gátum við sagt. En tilfinningin um að fólk hafi búið þarna í gegnum tíðina og stundi veiðimennsku þar enn í dag var mögnuð. Eða að ganga um heilaga svæðið í háfjöllunum í Nepal þar sem fólkið umgengst náttúruna af svo mikilli virðingu að það tekur ekki eitt einasta líf. Heggur ekki einu sinni lifandi hríslur til að brenna í ísköldum húsunum sínum, heldur fá þær að vaxa í friði. Það kyndir með dauðum kvistum og jakuxataði og slátrar engu heldur ræktar kartöflur og annað grænmeti sér til matar. Lífsbaráttan í þessu hrjóstruga og fallega umhverfi orkar sterkt á mig. Ég hlakka til núna um páskana, þá ætlum við að fara fyrstu ferðina á Inkaslóðir í Perú. Sambýli náttúru og manns á slíkum svæðum er alltaf heillandi.“ Í huganum sér maður fyrir sér heimskautafara og háfjallagarpa veðurbarða og rúnum rista eftir fangbrögð við óblíða náttúru, en Leifur Örn er eins og sumardrengur á leið í sveit, að frátöldu skegginu. Hverju sætir það? Hann hlær. „Ég leit nú út eins og talibani bara í gær því bæði hár og skegg var orðið svo mikið en svo var ég klipptur stutt. Kem ekki heim aftur fyrr en í lok nóvember og þessi snyrting á að duga þangað til. En ég tel að stressleysið á fjöllum fari vel með mig. Þó að gönguferðir geti verið líkamlega krefjandi þá eru þær í rauninni slökun í leiðinni. Það er gott að vera í aðstæðum þar sem maður er bara að takast á við daginn í dag og þarf ekki að hugsa um átján hluti í einu og vera með ótal margt á döfinni eins og í byggð.“ Leifur Örn er meðal reyndustu leiðsögumanna Íslands. Hann hefur farið á hæstu tinda allra heimsálfanna og flesta oft. Suðurpóllinn kom við sögu fyrr í viðtalinu, Norðurpólinn hefur hann sigrað líka. Þó leist honum ekki á blikuna. „Þegar ég flaug yfir ísinn á Norðurheimskautinu og sá hvernig þessa fljótandi íshellu rekur saman í hryggi og gliðnar sundur í sprungur þá hugsaði ég að þetta væri engum fært nema fuglinum fljúgandi – en svo gekk allt vel." Þú hefur greinilega dómgreindina og heppnina með þér. „Já, en maður má aldrei sýna andvaraleysi og hugsa að maður komist eitthvað á heppni eða fyrri afrekum, þá er hætta á mistökum. Ég er náttúrlega með gott GPS-tæki en glími við nýtt vandamál því skjárinn á því hefur minnkað og stafirnir líka! Það eru heilmikil viðbrigði að þurfa að byrja á að setja á sig gleraugu til að sjá á tækið, ég tala nú ekki um í vitlausu veðri, þegar maður hefur áður komist upp með að vinna úr aðstæðum jafnóðum. Það þýðir líka að maður verður að undirbúa sig betur áður en lagt er af stað.“ Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. október 2016. Lífið Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Lífið Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Lífið Límdi fyrir munninn á öllum við borðið Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Fleiri fréttir Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Frægir fjölguðu sér árið 2024 Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni „Það besta, versta og skrýtnasta á árinu“ Eitt fallegasta hús landsins sem Duna Laxness ólst upp í Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Barst með snjóflóði út í sjó og fékk hjartaáfall á tíu metra dýpi Hefðum við átt að sjá framboð Höllu Hrundar fyrir strax í febrúar? Ringo tróð upp á tónleikum Paul McCartney Safnaði fyrir björgunarsveitinni sem kom ömmu úr snjóflóði Fjölgar listaverkum eftir konur á Bessastöðum Sjá meira
Leifur Örn fjallaleiðsögumaður er nýkominn heim frá Norður-Afríku og er að leggja af stað til Nepal þegar hann er króaður af í viðtal. Nú stendur hann brátt á fimmtugu og það gefur tilefni til að líta um öxl og líka fram á veg. „Ég er meira og minna í leiðsögn, síðustu árin mikið í háum fjöllum og erfiðum leiðum, á Grænlandsjökli, á pólunum, í janúar síðastliðnum fór ég til dæmis bæði á Suðurpólinn og hæsta fjall Suðurskautslandsins. Það stóð til að ég færi aftur þangað núna í desember en það verður ekki og ég er feginn því. Það er kærkomið bæði fyrir mig sjálfan og fjölskylduna að ég sé aðeins heima.“ Þú ert fjölskyldumaður. „Já, ég á konu, Sigrúnu Hrönn Hauksdóttur, og börn sem eru orðin stálpuð, það yngsta er ellefu ára. Ég hef gegnum tíðina unnið mikið frá fjölskyldunni. Leiðsögnin er eins og togarasjómennska. En það hafa komið tímabil sem ég hef verið alveg heima hluta úr árinu, og unnið á Veðurstofunni eða í Björgunarskólanum.“ Hvaðan kemur þér áhuginn á fjallamennsku? Ætli Tinni í Tíbet eigi ekki sinn þátt í honum. Þegar ég fór á Everest tók ég þá bók með! Mér hefur alltaf þótt ævintýraljómi yfir fjallgöngum og ferðalögum sem þarf að hafa fyrir. Á æskuheimilinu í Kópavogi voru keyptar bækur um það sem gerðist fréttnæmt á hverju ári fyrir sig, ég staldraði alltaf við myndir af fjallaklifrurum, pólförum og fólki að sigla skútum kringum hnöttinn. Ég var líka ungur þegar ég fór að gista í snjóhúsi í garðinum og fara í gönguskíðaferðir. Svo hafa ferðirnar lengst og fjöllin hækkað.“Lítil sjoppa við göngustíg í Atlasfjöllum sem Leifur Örn gengur um í Marokkóferðunum. Leifur Örn var meðal þeirra sem stofnuðu Íslenska fjallaleiðsögumenn árið 1993. Þá hafði hann verið að leiðsegja erlendum ferðamönnum á sumrin og hélt því áfram. „Síðustu ár hef ég svo töluvert verið með Íslendinga í ævintýraferðum erlendis og þeim ferðum fjölgar á næstu árum. Nú er ég til dæmis nýkominn frá Marokkó með hóp. Við fórum fyrstu vikuna í október, þá er hitastigið orðið bærilegt í Marokkó og ágætur sumarauki fyrir Íslendinga. Verðlagið er lágt þarna og það er ævintýri að ganga um Atlasfjöllin. Þar búa Berbar og þótt þeir séu helmingur þjóðarinnar þá búa þeir afskekkt og tala annað tungumál en Arabarnir. Í efstu þorpum býr fólk enn í leirkofum og það er án samgangna í tvo mánuði á ári vegna snjóa. Okkur er því kippt í allt aðra menningu og veðurfar en við þekkjum að heiman en mataræðið er örugglega nær markmiðum Manneldisráðs en margt sem við borðum dags daglega, mikið af grænmeti og ávöxtum. Í hádeginu er breitt úr dýnum til að setjast á og matast, þær eru yfirleitt í skugga en þegar Íslendingar koma spyrja þeir: Hva, eigum við að borða í skugga? þá eru dýnurnar færðar í sólina!“Fólk í þorpinu Sugapa í Papúa Nýju-Gíneu sem gengið er um á leið á Carstensz Pyramid, hæsta fjall Eyjaálfu. Litli drengurinn ber typpahlíf, að sið karlmanna svæðisins, þó hún sé reyndar ekki í réttum skorðum. Sigrún Hrönn, eiginkona Leifs Arnar, er ferðagarpur líka og vinnur hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. „Sigrún var kennari til margra ára. Lærði svo mannfræði og þekkir til ýmissa þjóðflokka svo það er kærkomin viðbót þegar hún kemur með í ferðir,“ lýsir hann og segir þau hjón ætla saman í spennandi ferð í haust, í tilefni af fimmtugsafmæli hans. „Ég er að fara til Nepal núna í gönguferð upp í grunnbúðir Everest með tólf manna hóp, það er ein af fallegustu gönguleiðum heims. En þegar henni lýkur ætlar Sigrún að koma út og við ætlum að hjóla saman aðra fallega leið um Nepal. Fara með reiðhjólin upp í 5.400 metra hæð með eins lítinn farangur og við getum, einar hreinar nærbuxur hvort svo við getum skolað hinar og búið! Og kaupum okkur bara mat á te- og kaffihúsum.“ Er ekki hætta á háfjallaveiki þegar þið eruð komin í svona mikla hæð? „Jú, það verður að fara varlega í svona hæð og þó ég hafi verið í fjallabröltinu þá er það konan mín sem þolir hæðina betur en ég. Hún kom með mér í efri grunnbúðir Everest þegar ég var á leið á fjallið norðanmegin, þær eru í 6.500 metra hæð. Þar komst ég ekki úr sporunum en hún spurði bara hvað væri að mér! Hinir fjallamennirnir gerðu grín að þessu og spurðu hvort það væri ekki ráðlegra að hún héldi áfram en ég skriði niður aftur og færi heim. En það þarf ekki bara að aðlagast vel, heldur líka að hafa þessa sterku þrá sem drífur mann áfram í gegnum allt.“Á leið á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku.Í veðravíti á Vatnajökli Hvar hefur þú komist í hann krappastan? „Ég hef alltaf reynt að forðast að komast í hann mjög krappan og vil gera það framvegis. En eitt sinn kom beiðni frá Ítala um leiðsögn yfir þveran Vatnajökul í febrúar. Ég taldi það ekki nokkurt vit, þekkjandi veðravítið sem þar getur verið á þeim árstíma. Eftir dálítið þóf lét ég þó tilleiðast að fara með honum og tveimur vinum hans og við lögðum upp frá Kverkfjöllum í vikuferð. Þrátt fyrir að ég hafi aldrei fegrað hlutina fyrir þeim þá höfðu þeir ekki reiknað með að vera lengst af ferðinni eins og inni í jólakúlu með snjó og að veðurhæðin yrði þannig að tjaldgrindur brotnuðu og sleðarnir héldust ekki á réttum kili, hvað þá að við yrðum að leita skjóls í sprungum og grafa okkur í fönn. En allur þessi pakki fylgdi með. Stakkurinn minn var svo ísaður eitt kvöldið að í stað þess að taka hann inn í tjald og láta hann þiðna ákvað ég að fara í hann eins og klakabrynju um morguninn. Ég hafði farið að kenna fjallamennsku á Höfn nokkrum dögum áður og horft úr flugvél á Breiðamerkurjökul og Skeiðarárjökul alveg fagurdjúpbláa og snjólausa, ég hugsaði: þar fór flóttaleiðin. Svo ég fór Öræfajökulsleiðina með Ítalina og komst með þá í skjól undir Hvannadalshnúk í vestanátt. Við höfðum upplifað mikinn veðurham á köflum og allt sem við vorum með var ísað og eins og snjóboltar, þar á meðal áttavitinn. Ég segi við þá að þó veðrið sé gott þarna undir Hnúknum ætli ég ekki með þá upp á topp, heldur taka upp nesti og halda svo áfram. „Ef þú bara kemur okkur lifandi niður af þessu fjalli þá erum við þakklátir,“ sagði sá sem mest hafði nauðað um að fara. Þeir hafa verið í sambandi við mig síðan og senda mér alltaf myndir úr ferðinni, allar í móðu!“ Kannski verður þessum myndum brugðið upp í afmælisstundinni sem Leifur Örn ætlar að halda 3. desember, þegar hann verður fimmtugur. Hann er búinn að leigja Austurbæ undir myndasýningu og ætlar að bjóða þeim sem hafa gengið með honum gegnum tíðina. „Þetta er algerlega óundirbúið ennþá, myndirnar í pappakössum og enginn farinn að fá boðskort,“ segir hann afsakandi. Strax eftir áramótin er hann að fara á hæsta fjall Suður-Ameríku, Aconcagua, með hóp Íslendinga og í febrúar ætlar hann á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku. „Það er opið í þá ferð ennþá hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum!“ auglýsir hann. „Síðan ætla ég í smá frí með konunni minni. Hana langar að ganga Vasagönguna í Svíþjóð, 90 kílómetra skíðagöngu, og þó ég sé ekki vanur að ganga á þvengmjóum skíðum í einhverju skíðaspori hlýt ég að lifa það af!“ Grænland er eitt af eftirlætislöndum Leifs Arnar. „Við höfum verið með eina ferð yfir Grænlandsjökul í mörg ár, ég hef verið svo lánsamur að hafa farið nokkrum sinnum, meira að segja í 29 daga ferð með indverska sjóherinn sem var að æfa sig fyrir ferð á Suðurpólinn, það ferðalag væri efni í heilt viðtal,“ segir hann. „Við förum frá austri til vesturs yfir jökulinn, frá Angmagssalikhéraði, eins og Nansen gerði þegar hann fór fyrstur yfir jökulinn 1888. En veðurbreytingarnar í heiminum hafa áhrif á allt. Við erum orðnir svo hræddir við leysinguna sem er á jöklinum þegar fer að vora og förum um 20. apríl, ef veður leyfir, sem þýðir að hæðin yfir jöklinum er ekki orðin eins sterk og hún verður yfir sumarið. Ég var einn og hálfan mánuð á Grænlandi í sumar og allan júní og fram í ágúst var stilla og bjartviðri. Áður fóru fyrstu haustlægðirnar að snerta Grænland í byrjun september en nú eru þær farnar að koma um miðjan ágúst. Mér finnst Grænland ákaflega heillandi, hef verið mikið þar og náð að heimsækja nánast öll byggð ból. Austurströndin er í mestu uppáhaldi. Þar eru tindarnir hvassastir, jöklarnir fram í sjó og menning íbúanna einstök.“Með hóp á leið á Aconcagua, hæsta fjall Suður-Ameríku. Sérkennilegar snjóstrýtur, „Penitendes“, einkenna svæðið. Á heilögu svæði í háfjöllunum Er eitthvað sem hefur snortið þig meira en annað á þínum ferðum? Mér finnst alltaf hrífandi hvernig mannlíf og menning þrífst í köldum og hrjóstrugum löndum. Ég man eftir gönguskíðaferð um páska á austurströnd Grænlands, við löbbuðum upp á heiði til að horfa á ísjakana í Chalmerlick-firðinum og eftir bara smástund var maður gegnfrosinn í fínu dúnúlpunni og einangruðu vettlingunum. „Ah, nú förum við inn aftur í hlýjuna,“ gátum við sagt. En tilfinningin um að fólk hafi búið þarna í gegnum tíðina og stundi veiðimennsku þar enn í dag var mögnuð. Eða að ganga um heilaga svæðið í háfjöllunum í Nepal þar sem fólkið umgengst náttúruna af svo mikilli virðingu að það tekur ekki eitt einasta líf. Heggur ekki einu sinni lifandi hríslur til að brenna í ísköldum húsunum sínum, heldur fá þær að vaxa í friði. Það kyndir með dauðum kvistum og jakuxataði og slátrar engu heldur ræktar kartöflur og annað grænmeti sér til matar. Lífsbaráttan í þessu hrjóstruga og fallega umhverfi orkar sterkt á mig. Ég hlakka til núna um páskana, þá ætlum við að fara fyrstu ferðina á Inkaslóðir í Perú. Sambýli náttúru og manns á slíkum svæðum er alltaf heillandi.“ Í huganum sér maður fyrir sér heimskautafara og háfjallagarpa veðurbarða og rúnum rista eftir fangbrögð við óblíða náttúru, en Leifur Örn er eins og sumardrengur á leið í sveit, að frátöldu skegginu. Hverju sætir það? Hann hlær. „Ég leit nú út eins og talibani bara í gær því bæði hár og skegg var orðið svo mikið en svo var ég klipptur stutt. Kem ekki heim aftur fyrr en í lok nóvember og þessi snyrting á að duga þangað til. En ég tel að stressleysið á fjöllum fari vel með mig. Þó að gönguferðir geti verið líkamlega krefjandi þá eru þær í rauninni slökun í leiðinni. Það er gott að vera í aðstæðum þar sem maður er bara að takast á við daginn í dag og þarf ekki að hugsa um átján hluti í einu og vera með ótal margt á döfinni eins og í byggð.“ Leifur Örn er meðal reyndustu leiðsögumanna Íslands. Hann hefur farið á hæstu tinda allra heimsálfanna og flesta oft. Suðurpóllinn kom við sögu fyrr í viðtalinu, Norðurpólinn hefur hann sigrað líka. Þó leist honum ekki á blikuna. „Þegar ég flaug yfir ísinn á Norðurheimskautinu og sá hvernig þessa fljótandi íshellu rekur saman í hryggi og gliðnar sundur í sprungur þá hugsaði ég að þetta væri engum fært nema fuglinum fljúgandi – en svo gekk allt vel." Þú hefur greinilega dómgreindina og heppnina með þér. „Já, en maður má aldrei sýna andvaraleysi og hugsa að maður komist eitthvað á heppni eða fyrri afrekum, þá er hætta á mistökum. Ég er náttúrlega með gott GPS-tæki en glími við nýtt vandamál því skjárinn á því hefur minnkað og stafirnir líka! Það eru heilmikil viðbrigði að þurfa að byrja á að setja á sig gleraugu til að sjá á tækið, ég tala nú ekki um í vitlausu veðri, þegar maður hefur áður komist upp með að vinna úr aðstæðum jafnóðum. Það þýðir líka að maður verður að undirbúa sig betur áður en lagt er af stað.“ Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. október 2016.
Lífið Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Lífið Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Lífið Límdi fyrir munninn á öllum við borðið Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Fleiri fréttir Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Frægir fjölguðu sér árið 2024 Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni „Það besta, versta og skrýtnasta á árinu“ Eitt fallegasta hús landsins sem Duna Laxness ólst upp í Garðar málari og kvæntur yngstu ömmu landsins Barst með snjóflóði út í sjó og fékk hjartaáfall á tíu metra dýpi Hefðum við átt að sjá framboð Höllu Hrundar fyrir strax í febrúar? Ringo tróð upp á tónleikum Paul McCartney Safnaði fyrir björgunarsveitinni sem kom ömmu úr snjóflóði Fjölgar listaverkum eftir konur á Bessastöðum Sjá meira