Erlent

Trump reynir að friða alþjóðasamfélagið á lokametrunum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Trump á frambjóðandafundi í Michigan í gær.
Trump á frambjóðandafundi í Michigan í gær. Vísir/Getty
Kosningateymi Donald Trump vinnur nú hörðum höndum við að bæta orðspor hans hjá alþjóðasamfélaginu á lokametrum kosningabaráttunnar. Bandaríkjamenn ganga til kosninga á morgun og þá kemur í ljós hvort Trump eða Hillary Clinton hreppi Hvíta húsið. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er Clinton með nokkurra prósentustiga forskot á Trump.

Kellyanne Conway, kosningastjóri Trump, sagði í samtali við BBC að andúð á Trump „endurspegli ekki hvers vegna Trump er í framboði og hvernig hann yrði á alþjóðasviðinu.“ Þá gagnrýndi hún einnig „ómerkilega og mislita“ tíð Clinton sem utanríkisráðherra.

Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa gagnrýnt framboð Trump. Þar á meðal er Francois Hollande, forseti Frakklands, sem sagði að Trump léti fólk „vilja æla.“ Þá hefur mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sagt hann ógn við alþjóðasamfélagið.

Kellyanne Conway, kosningastjóri Trump.Vísir/Getty
Bandaríkin fyrst

Í samtali sínu við BBC sagði Conway að neikvætt viðhorf alþjóðasamfélagsins gagnvart Trump trufli hana en að það renni stoðum undir áherslur Trump að setja Bandaríkin í fyrsta sæti. 

Hún sagði að þegar Trump segir „Bandaríkin fyrst þá meinar hann það,“ og nefndi ástæður þess, að vilja stöðva útflutning á vinnuafli, sjá til þess að allir bandamenn landsins, þar á meðal NATO, borgi sinn hlut og að endursemja um verslunarsamninga sem komi illa út fyrir Bandaríkin.

Sjá einnig:Trump bannað að nota Twitter á lokametrunum

Conway brást einnig við ummælum Barack Obama Bandaríkjaforseta að Trump væri ekki treystandi fyrir aðgangi að kjarnorkubúri Bandaríkjamanna. Obama sagði á fundi í Flórída á sunnudag að ef Trump væri ekki treystandi fyrir Twitter aðgangi sínum ætti hann ekki að hafa stjórn á kjarnorkuvopnum landsins. 

Þá þvertók Conway fyrir þær fregnir að Trump fengi ekki að sjá um Twitter aðgang sinn og sagði að Clinton hefði sjálf ekki sannað að henni væri treystandi fyrir vopnunum og vísaði þá til hinna margumræddu tölvupósta Clinton og að hún hafi ekki notað öruggt netfang í opinberum erindagjörðum.


Tengdar fréttir

Clinton lét húshjálpina prenta út leynileg skjöl

Bandaríkjamenn kjósa nýjan forseta á morgun. Valið stendur á milli Donalds Trump og Hillary Clinton. Skoðanakannanir benda til lítils forskots Clinton. Forskot hennar hefur minnkað undanfarið vegna tölvupóstahneykslis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×