Fótbolti

Hólmfríður spilar líklega í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir er líklega á heimleið.
Hólmfríður Magnúsdóttir er líklega á heimleið. vísir/vilhelm
Hólmfríður Magnúsdóttir, landsliðskona í fótbolta, íhugar það alvarlega að koma aftur heim og spila í Pepsi-deild kvenna í fótbolta en þetta kemur fram í viðtali við hana í Morgunblaðinu í dag.

Hólmfríður hefur spilað sem atvinnumaður hjá Avaldsnes í Noregi síðan 2012 en hún tilkynnti tárvot í viðtali eftir lokaumferðina um helgina að hún væri búin að spila sinn síðasta leik fyrir norska liðið.

Sjá einnig:Hólmfríður barðist við tárin í tilfinningaþrungnu viðtali

„Nokkur lið hafa þegar haft samband frá Íslandi og það kemur vel til greina að koma heim, þar sem deildin hefur verið jöfn og er búin að styrkjast,“ segir Hólmfríður við Morgunblaðið. Hún er uppalin KR-ingur en spilaði átta leiki fyrir Val og skoraði sex mörk sumarið 2011 áður en hún fór út.

Hólmfríður kom til Avaldsnes þegar liðið var í B-deildinni en þá kom þar inn maður sem hefur látið mikla fjármuni í félagið. Hann er að hætta núna og fékk Hólmfríður samningstilboð sem var einfaldlega ekki nógu gott, að hennar sögn.

Þórunn Helga Jónsdóttir spilar einnig með Avaldsnes en hún er líklega á förum líkt og Hólmfríður. „Við erum margar á förum,“ segir Hólmfríður Magnúsdóttir..

Avaldsnes hafnaði í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar annað árið í röð í baráttu við meistara síðustu tveggja ára, Lilleström.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×