Innlent

BHM segir úrskurð kjararáðs til þess fallinn að valda uppnámi á vinnumarkaði

Atli Ísleifsson skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
BHM telur að úrskurður kjararáðs um að hækka verulega laun forseta Íslands, alþingismanna og ráðherra til þess fallinn að valda uppnámi á vinnumarkaði. Kallar bandalagið eftir heildarendurskoðun á lögum um kjararáð.

Í ályktun BHM um málið segir að hækkun launa æðstu ráðamanna þjóðarinnar um allt að 44 prósent í einu skrefi sé í engu samræmi við þær launahækkanir sem ríkið bjóði opinberum starfsmönnum eða það sem samið sé um á almennum vinnumarkaði.

„Samkvæmt launastefnu sem ríkisvaldið og sveitarfélögin styðja er gert ráð fyrir að laun hækki um 30,5% á fimm ára tímabili, frá nóvember 2013 til ársloka 2018. Úrskurður kjararáðs um hækkun launa alþingismanna, ráðherra og forseta lýðveldisins er ekki í neinu samræmi við fyrrnefnda launastefnu. Hann er til þess fallinn að valda uppnámi á vinnumarkaði.

BHM kallar því eftir heildarendurskoðun á lögum um kjararáð. Markmið þeirrar endurskoðunar skal vera að skýra viðmiðunarreglur kjararáðs, fækka starfsstéttum sem undir það heyra og bæta verklag við ákvarðanir ráðsins. Viðmiðun ráðsins gæti t.d. byggt á annars vegar samanburði við launaþróun opinberra starfsmanna og hins vegar launaskriði á almennum vinnumarkaði. Reglulegar launabreytingar sem byggja á skýrum og gagnsæjum viðmiðunarreglum og samræmdum launagögnum eru forsenda sáttar um starf kjararáðs.

Aðilar salek-samstarfsins hafa um skeið unnið að því að bæta vinnubrögð við samningagerð á íslenskum vinnumarkaði. Í þessari vinnu hefur BHM lagt áherslu á að traust þurfi að ríkja milli aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera svo sátt megi skapast um þau mikilvægu skref sem framundan eru. Ljóst er að úrskurðir kjararáðs eru ekki til þess fallnir að skapa traust á milli aðila og þeir grafa undan möguleikum á því að skapa sátt á vinnumarkaði.

BHM ítrekar því að ekki verði hægt að koma á sátt um nýtt vinnumarkaðslíkan nema umbætur á launaumhverfi æðstu stjórnenda ríkisins falli þar undir líka. BHM væntir þess að nýkjörið Alþingi bregðist skjótt við og greiði fyrir umbótum á vinnumarkaði með lagabreytingum um kjararáð svo koma megi í veg fyrir innbyrðis höfrungahlaup þeirra hópa sem undir það heyra,“ segir í ályktuninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×