Sport

Fékk mögulega gat á lunga en kláraði samt leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hér fær Gronkowski umrætt högg frá Thomas.
Hér fær Gronkowski umrætt högg frá Thomas. Vísir/Getty
Rob Gronkowski, innherji New England Patriots, fékk líklega gat á annað lungað sitt í leik liðsins gegn Seattle Seahawks aðfaranótt mánudags. Engu að síður kláraði hann leikinn.

Hinn tröllvaxni Gronkowski fékk þungt högg þegar hann var tekinn niður af Earl Thomas, varnarmanni Seahawks, í leiknum. Hann hvíldi í næstu fimm leikkerfum Patriots en kom svo aftur inn á og kláraði leikinn.

„Þetta var ansi vænt högg - líklega það þyngsta sem ég hef fengið á mínum ferli. Það tel ég nokkuð víst,“ sagði Gronkowski eftir leikinn.

Patriots hefur ekki staðfest að Gronkowski hafi fengið gat á lungað en það er engu að síður fullyrt í fjölmiðlum vestanhafs.

Sjá einnig: Fengu far með Gronk án þess að vita af því

„Það var svolítið erfitt að anda en þegar maður nær andanum aftur þá er þetta í góðu lagi. Það var ekkert ólöglegt við þetta - svona er íþróttin.“

Gronkowski fékk tækifæri til að tryggja Patriots sigur í leiknum en honum mistókst að grípa lokasendingu Tom Brady, leikstjórnanda Patriots, í leiknum. Svo fór að Seahawks vann, 31-24.

Sjá einnig: Patriots tapaði á heimavelli

Þrátt fyrir að innherjinn sterki hafi klárað leikinn þykir líklegt að hann muni missa af leik Patriots gegn San Francisco 49ers á sunnudagskvöld.

Hér má sjá myndband af atvikinu í leik helgarinnar.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×