Lífið

Gerir myndbönd og lærir á gítar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Óli Matti stillir sér upp eins og sönn rokkstjarna.
Óli Matti stillir sér upp eins og sönn rokkstjarna. Mynd/Þórdís Lilja
Ólafur Matti Matthíasson er í 5. bekk í Hólabrekkuskóla og finnst langskemmtilegast í ensku. Hann hefur gaman af að lesa og var að ljúka við eina bók sem hann gat varla lagt frá sér. Hvaða bók er það?

Bókin heitir Maður hendir ekki börnum í ruslatunnuna og er eftir Bent Haller. Hún er spennandi og hræðileg, reyndar svo mikið að ég fékk martröð. En hún fékk mig til að hugsa um hvað ég myndi gera í sömu aðstæðum og söguhetjurnar sem finna nýfætt barn í ruslinu.

Helstu áhugamálin? Tónlist, helst popp, RB og allt rokk, líka hiphop dans, að lesa skemmtilegar bækur, gera myndbönd og svo er ég að læra á gítar.

Skemmtilegasta ferðalagið? Þegar ég fór hringinn kringum Ísland. Mér finnst gaman að skoða náttúruna og auðvitað að vera með fjölskyldunni.

Uppáhaldsstaður á Íslandi? Mér finnst Háifoss í Þjórsárdal mjög flottur og líka stuðlabergið í Reynisfjöru í Mýrdal.

Eftirlætistölvuleikur? Ég hef engan áhuga á tölvuleikjum en mér þykir gaman að dansa og syngja við tónlistarmyndbönd á YouTube.

Hefurðu lent í ævintýri? Einu sinni ætlaði ég að skreppa með vini mínum í stuttan hjólatúr heima í Efra-Breiðholti sem endaði óvænt í IKEA í Garðabæ.

Við áttum 200 krónur og héldum að þær dygðu fyrir einhverju góðgæti í hjólatúrnum. Byrjuðum í Smáralind og ætluðum að fá okkur Dunkin Donuts kleinuhringi en bara einn kostaði 350!

Þá datt okkur í hug að hjóla í IKEA, þar gátum við keypt okkur hvor sitt glasið af ísköldu krapi fyrir peninginn.

Foreldrar okkar urðu frekar hissa þegar þeir fréttu af þessu ferðalagi.

Hvað langar þig að verða? Mig langar mest að verða heimsfræg popp- og rokkstjarna. Þá gæti ég orðið nógu ríkur til að hjálpa þeim sem eiga bágt í heiminum og kannski haft áhrif á að stríð taki enda. Það er stóri draumurinn minn.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. nóvember 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×