Jól

Sjö sorta jól

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Leikfélags Reykjavíkur og matgæðingur hinn mesti, bakar ekki færri en sjö sortir fyrir jólin.  mynd/Hanna
Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Leikfélags Reykjavíkur og matgæðingur hinn mesti, bakar ekki færri en sjö sortir fyrir jólin. mynd/Hanna
Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Leikfélags Reykjavíkur, nýtur aðventunnar í botn. Jólastress þekkist ekki í hennar bókum en fjölskyldan sækir saman jólatónleika í miðbænum, skreytir og bakar.



Strax í nóvember fer ég að huga að jólunum, kaupi eina og eina gjöf og yfirleitt baka ég nokkrar sortir áður en aðventan hefst. Baksturinn heldur áfram inn í desember en við bökum að lágmarki 7 sortir. Á Þorláksmessu njótum við þess að bjóða fólkinu okkar í skötu, við misgóðar undirtektir, förum síðan í bæinn, drekkum kakó eða jólabjór og njótum stemmingarinnar,“ segir Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Leikfélags Reykjavíkur og matgæðingur hinn mesti.

Sortirnar sjö segir hún breytilegar ár frá ári. Fjölskyldan festi sig ekki í hefðum og jólastress sé löngu horfið úr undirbúningi jólanna.

„Ég átti það alveg til þegar ég var yngri. En með þessum dásemdarárum sem ég safna með svo mikilli gleði verður jólastressið mun minna og er bara horfið. Það sem skiptir mig mestu máli er að sjálfsögðu fólkið mitt. Aðventan er dásamlegur tími og við fjölskyldan reynum að njóta hennar í sameiningu.

Við bökum ekki alltaf sömu sortirnar. Stundum gerum við sörur, hálfmána og piparkökur, alltaf klassískar súkkulaðibita- og döðlukökur og hindberjatoppa. Kókosklattarnir með hvíta súkkulaðinu bættust í hópinn fyrir 2-3 árum og eru núna ómissandi. Svo eru það kókostoppar með súkkulaði og appelsínuberki og alltaf einhverjar tilraunir sem stundum heppnast og stundum ekki.“

Til að fá frekari útrás fyrir matar­gerðaráhugann birtir Berg­lind reglulega uppskriftir og myndir á síðunni kryddogkrásir.com.

„Það eru ríflega þrjú ár síðan ég lét undan þrýstingi yngri dóttur minnar og byrjaði að blogga en ég nýt dyggrar aðstoðar og hvatningar frá fjölskyldunni,“ segir Berg­lind en matargerð og bakstur hefur fylgt henni alveg frá barnæsku.

„Ég á mínar fyrstu minningar uppi á stól við eldavélina að steikja brauð með kjötfarsi fyrir mig og bróður minn, og egg í holubrauði. Ég safnaði uppskriftum að góðum kökum um leið og ég safnaði servíettum og glansmyndum, réð mig 12 ára í sveit til að elda og baka. Sem unglingur var sumarvinnan fólgin í að ferðast um landið á eldhúsbíl Úlfars Jacobsen og elda fyrir erlenda ferðamenn í safaríferðum á hálendi Íslands.

Áhuginn hefur auðvitað bæði þróast og breyst í gegnum árin. Ég hef sótt nokkur námskeið fyrir áhugafólk, bæði hér heima og erlendis og á dágott safn matreiðslubóka sem ég les eins og aðrir lesa reyfara.“

Þegar kemur að jólamatnum er Berglind í essinu sínu og fjölskyldan öll. Þá skemmta þau sér við að flækja einfalda hluti við matreiðsluna og láta ekki einn aðal­rétt duga.

Við erum með 2-3 aðalrétti á aðfangadag, bara til að allir fái örugglega sitt uppáhald,“ segir hún sposk.

„Á síðustu árum höfum við verið djarfari við val á forrétt og aðalréttum. Humar og villtar gæsir leika yfirleitt stórt hlutverk á matseðli okkar fyrir djarfa hluta fjölskyldunnar, en hamborgar­hryggur fyrir þá íhaldssömu og stundum hnetusteik eða annar grænmetisréttur þegar mágur minn er á landinu. Sjálf ber ég hitann og þungann af matseldinni en nýt dyggrar aðstoðar allra fjölskyldumeðlima. Tengdasonur minn er mikill snillingur í eldhúsinu og spilar hann sífellt stærri og skemmtilegri rullu í jólamatseldinni.“

Hindberjatoppar og kókoskökur með hvítu súkkulaði úr smiðju Berglindar.
Hindberjatoppar

300 g smjör
200 g sykur
1 egg
450 g hveiti
50 g haframjöl + meira til að velta kökunum í
Hindberjasulta
 
Skerið smjörið í bita og setjið allt nema hindberjasultuna í hrærivélarskál. Vinnið vel saman.
Rúllið deiginu upp í tvær pulsur. Skerið í jafna bita, gerið kúlur úr hverjum bita. Veltið upp úr haframjöli, þrýstið aðeins ofan á hverja kúlu og myndið litla holu í miðjuna. Setjið hindberjasultu í holuna á hverri köku. Raðið á bökunarplötu og bakið við 180°C í 10-12 mínútur.

Kókoskökur með hvítu súkkulaði

200 g smjör
½ bolli púðursykur
½ bolli sykur
1 egg
1 tsk. vanilludropar
1 ½  bolli hveiti
1 tsk. matarsódi
¼ tsk. salt
2 bollar kókosmjöl
150 g hvítt súkkulaði smátt saxað
 
Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan er ljós og létt, bætið eggi og vanilludropum út í og hrærið vel. Þá er þurrefnunum blandað saman við og loks hvítu súkkulaðinu.  Setjið með teskeið (eða lítilli ísskeið) á pappírsklædda bökunarplötu.  Bakið við 180°C í 8-10 mínútur.
Geymið kökurnar í vel lokuðu íláti á köldum stað eða í frysti.





×