Viðskipti innlent

Íslendingar versla jólagjafirnar meira á netinu en nokkru sinni fyrr

Snærós Sindradóttir skrifar
Jólapakkarnir streyma til landsins úr vefverslunum og mikið álag er á pósthúsum eins og hér í Síðumúla í Reykjavík.
Jólapakkarnir streyma til landsins úr vefverslunum og mikið álag er á pósthúsum eins og hér í Síðumúla í Reykjavík. Fréttablaðið/Vilhelm
Sendingum hingað til lands frá erlendum verslunum til einstaklinga fjölgaði um 55 prósent á milli ára í nóvember 2015 og nóvember 2016.

Á sama tíma fjölgaði innlendum pakkasendingum um 35 prósent á tímabilinu. Íslendingar virðast kaupa jólagjafirnar í mun meiri mæli í gegn um tölvuna í stað þess að kaupa þær í íslenskum verslunum á staðnum.

Fréttablaðið óskaði upplýsinga um pakkasendingar frá útlöndum fyrir jólin í samanburði við í fyrra. Engar magntölur bárust en fjölgunin í erlendum pökkum er sem áður segir 55 prósent á milli ára. Reikna má með að mikill meirihluti sé úr erlendum netverslunum.

Í október dróst innlend fataverslun saman miðað við síðasta ár, þótt verð á fötum hafi lækkað um 5,9 prósent milli ára. Um síðustu áramót voru tollar af fatnaði og skóm felldir niður.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Fréttablaðið/Stefán
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir það ekkert nýtt að íslensk verslun eigi í harðri samkeppni við erlenda verslun.

„Bæði er netverslun að aukast en það er líka viss freisting, þegar gengi krónunnar er eins og raun ber vitni, að kaupa varning að utan. Þannig að það að gengi krónunnar er svona sterkt og hagstætt, innan gæsalappa, ýtir enn frekar undir að netverslun færist úr landi,“ segir Andrés.

Brynjar Smári Rúnarsson hjá Póstinum. Mynd/aðsend
Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðs- og upplýsingamála Íslandspósts, segir að margir versli jafnvel einvörðungu á netinu og ekkert í verslunum.

„Það hefur verið mikil aukning undanfarin ár en síðustu mánuðir hafa verið mjög stórir hjá okkur. Þeir sem eru vanir að versla vita að þetta tekur meiri tíma á þessum árstíma. Þeir byrjuðu fyrr og hafa fengið jólagjafirnar í nóvember.“

Brynjar segir aukninguna fela í sér mikið álag á pósthúsum og öðrum afhendingarleiðum póstsins. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×