Íslenski boltinn

Hallbera: EM stærsta ástæðan fyrir því að ég er að fara út

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hallbera Guðný Gísladóttir mun leika með Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta á næsta tímabili.



Hallbera hefur leikið með Breiðabliki undanfarin tvö tímabil. Hún varð Íslandsmeistari með Breiðabliki í fyrra og bikarmeistari í sumar.

Hallbera segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að fara aftur út í atvinnumennsku.

„Nei, í rauninni ekki. Það var ekki erfið ákvörðun að fara út en erfitt að yfirgefa Blikana, það er topp klúbbur. En þetta er eitthvað sem ég þurfti að gera fyrir mig persónulega,“ sagði Hallbera í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Skagakonan er í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu sem tekur þátt á EM í Hollandi á næsta ári. En hafði þátttakan á EM eitthvað með ákvörðun Hallberu að gera?

„Já, það er aðalástæðan fyrir því að ég er að gera þetta. Hérna heima er ég að vinna og í fullu námi líka þannig það gengur ekkert sérstaklega vel að ætla að æfa eins og afreksmaður í íþróttum. Með því að fara út þarf ég ekki að vinna lengur, nema bara í fótboltanum,“ sagði Hallbera sem gerði eins árs samning við Djurgården með möguleika á árs framlengingu.

Hjá Djurgården hittir Hallbera fyrir liðsfélaga sinn hjá landsliðinu, markvörðinn Guðbjörgu Gunnarsdóttur.

„Ég er búin að vera í miklu sambandi við Guggu og hún gefur þessum klúbbi topp meðmæli. Ég treysti henni,“ sagði Hallbera sem lék áður með Piteå í sænsku úrvalsdeildinni. Hún hefur einnig leikið með ÍA, Val og Torres á Ítalíu.


Tengdar fréttir

Hallbera til Djurgården

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Hallbera Guðný Gísladóttir spilar í sænsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili en hún verður liðsfélagi markvarðarins Guðbjargar Gunnarsdóttur hjá Djurgården í Stokkhólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×