Erlent

Bandaríkin reka 35 rússneska erindreka úr landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Barack Obama og Vladimir Putin.
Barack Obama og Vladimir Putin. Vísir/AFP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna meintra tölvuárása Rússa í Bandaríkjunum. Leyniþjónustur Bandaríkjanna hafa sakað yfirvöld Rússlands um að hafa reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar þar í landi með tölvuárásum og þeir hafi hjálpað Donald Trump að sigra í kosningunum.

Þar að auki hefur 35 rússneskum erindrekum verið skipað að yfirgefa landið. Embættismenn í Bandaríkjunum segja það vera gert vegna tölvuárásanna og áreitis gagnvart bandarískum erindrekum í Rússlandi. Erindrekarnir rússnesku hafa aðsetur í sendiráði Rússlands í Washington DC og í ræðismannsskrifstofu Rússlands í San Francisco.

Þeir og fjölskyldur þeirra hafa 72 klukkustundir til að yfirgefa Bandaríkin.

Viðskiptaþvinganir, sem eru hluti af refsiaðgerðum Bandaríkjanna, snúa að níu aðilum og stofnunum og þar á meðal eru tvær leyniþjónustur Rússlands, GRU og FSB. Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna segir þvinganirnar beinast gegn aðilum sem komu að því að „grafa undan kosningunum og stofnunum“.

Einnig verður Rússum neitaður aðgangur að tveimur byggingum í Bandaríkjunum sem eru í eigu þeirra. Embættismenn segja byggingarnar hafa verið notaðar í njósnatilgangi.

Rússar hafa neitað því að hafa framkvæmt tölvuárásir í Bandaríkjunum til að hafa áhrif á kosningarnar og Donald Trump segir þessar ásakanir vera „fáránlegar“. Trump hefur haldið því fram að þessar ásakanir hafi eingöngu verið lagðar fram eftir að hann vann kosningarnar í nóvember, en þær komu upprunalega fram í byrjun október.

Obama segir aðgerðir ríkisstjórnar sinnar vera nauðsynlegar og að allir Bandaríkjamenn ættu að hafa áhyggjur af framferði Rússlands. Þá segir hann Erindreka Bandaríkjanna í Rússlandi hafa orðið fyrir óásættanlega miklu áreiti í Rússlandi síðasta árið.

Sameiginleg yfirlýsing öryggisstofnana í Bandaríkjunum um árásirnar.

Tengdar fréttir

Trump segir afsakanir Demókrata neyðarlegar

„Mér finnst þetta fáránlegt. Ég held að þetta sé enn ein afsökunin. Ég trúi þessu ekki,“ sagði forsetinn verðandi í viðtali við Fox News.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×