Íslenski boltinn

Elfar Freyr gæti verið á leið aftur í atvinnumennsku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elfar Freyr byrjaði alla 22 leiki Breiðabliks í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili.
Elfar Freyr byrjaði alla 22 leiki Breiðabliks í Pepsi-deildinni á síðasta tímabili. vísir/stefán
Elfar Freyr Helgason gæti verið á förum til danska úrvalsdeildarliðsins Horsens á láni frá Breiðabliki. Kjartan Henry Finnbogason leikur með Horsens og hefur gert frá miðju sumri 2014.

Horsens og Breiðablik eiga í viðræðum um mögulegan lánssamning. Eysteinn Lárusson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, staðfesti þetta í samtali við Fótbolta.net.

Horsens vill fá Elfar að láni út tímabilið með möguleika á kaupa hann að því loknu.

Elfar, sem er 27 ára, hefur leikið með Breiðabliki allan sinn feril ef frá eru talin þrjú ár sem hann var í atvinnumennsku. Hann lék með AEK í Aþenu 2011-12, fór þaðan til Stabæk í Noregi og svo til Randers í Danmörku.

Elfar sneri aftur til Breiðabliks á miðju sumri 2013 og hefur leikið með Kópavogsliðinu síðan þá. Elfar hefur alls leikið 115 leiki með Breiðabliki í efstu deild og skorað þrjú mörk. Hann varð bikarmeistari með Blikum 2009 og Íslandsmeistari ári seinna.

Horsens situr í 7. sæti dönsku deildarinnar. Keppni í dönsku deildinni hefst aftur um miðjan febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×