Sport

Hótaði að eyðileggja starfsferil blaðamanns

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hinn litríki Sherman ræðir hér við dómara.
Hinn litríki Sherman ræðir hér við dómara. Vísir/Getty
Richard Sherman er einn besti varnarmaður NFL-deildarinnar og lykilmaður í sterku liði Seattle Seahawks. Það er þó óhætt að fullyrða að hann sé með muninn fyrir neðan nefið og sé óhræddur að svara fyrir sig. Hann gekk þó líklega of langt á blaðamannafundi í gær.

Seattle vann öruggan 24-3 sigur á LA Rams á fimmtudagskvöldið en þrátt fyrir yfirburði sjóhaukanna náðust myndir af því þegar Sherman var að hnakkrífast við sóknarþjálfara liðsins, Darrell Bevell.

Sherman var ekki ánægður með að Bevell hafi kallað eftir kastkerfi þegar sókn Seattle var við endamarkið í stað þess að láta hlaupa með boltann, sem er öllu algengara og mun hættuminna.

Jim Moore, blaðamaður í Seattle, spurði Sherman út í málið á blaðamannafundi í gær. Sherman reiddist spurninginn.

„Leyfðu mér að giska. Þú hefur betri hugmynd um hvernig á að spila leikinn?“ svaraði hann.

Moore svaraði neitandi og Sherman svaraði um hæl að honum væri þá líklegast hollast að hætta að tala.

Sherman lét ekki þar við sitja og eftir blaðamannafundinn vatt hann sér upp að Moore.

„Þú ættir ekki að koma hingað inn,“ sagði hann og átti við búningsklefa Seattle, þar sem blaðamenn fá oft að ræða við leikmenn.

„Þú vilt það ekki. Ég mun eyðileggja ferilinn þinn,“ sagði Sherman.

„Nú? Hvernig?“

„Ég læt fjarlægja blaðamannapassann þinn.“

„Já, er það?“

„Já. Já, það er rétt.“

Sherman hefur greinilega séð eftir öllu saman miðað við skrif hans á Twitter-síðu sína í gærkvöldi, eins og sjá má hér fyrir neðan.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×